Fara í efni
Menning

Myndlistarnemar sýna í Mjólkurbúðinni

Sex af sjö sýnendum í Mjólkurbúðinni, Iðunn Lilja Sveinsdóttir var fjarverandi.
Sex af sjö sýnendum í Mjólkurbúðinni, Iðunn Lilja Sveinsdóttir var fjarverandi.

Teikning, sýning nemenda Myndlistaskólans á Akureyri, verður opnuð í dag klukkan 16.00 í Mjólkurbúðinni í Listagilinu. Þar sýna sjö nemendur, en teikning hefur verið viðfangsefni nemenda í skólanum síðastliðinn mánuð.

Kennt er þvert á deildir og vinna því hönnunarnemendur og myndlistarnemendur samhliða, sem gefur færi á að auknu flæði á milli greina, að sögn Herdísar Bjarkar Þórðardóttur, kennara. Grunnmarkmiðið hefur verið að þjálfa augað og auka færni í teikningu, færni sem er svo nýtt áfram í sjálfstæð verkefni.

Sjö konur sýna verk í Mjólkurbúðinni, nemendur á 1. og 3. ári í fagurlistadeild og á 1. og 2. ári í listhönnunardeild; Anna María Hjálmarsdóttir og Iðunn Lilja Sveinsdóttir í fyrrnefndu deildinni, hinar eru Guðný María Nínudóttir, Heiðdís Buzgò, Sigríður Dagný Þrastardóttir, Sísí Sigurðardóttir og Tereza Kociánová

„Það er gaman að því að hver okkar túlkar viðfangsefnið á misjafnan hátt. Nálgunin er mjög ólík; sumar teikna með blýanti, aðrar vinna í teiknitölvu eða nota vatnsliti. Mér finnst skemmtilegt hvað þetta er fjölbreytt,“ sagði Anna María Hjálmsdóttir í dag.

Sýningin er opin til 20 í kvöld, á morgun frá 14 til 18 og á sunnudag frá 14 til 17.