Fara í efni
Menning

Myndlist Óla G. prýðir veggi Hofs í sumar

Óli G. Jóhannsson á vinnustofu sinni á Akureyri í febrúar 2010. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Meistarastrokur Óla G. Jóhannssonar heitins prýða veggi menningarhússins Hofs frá og með föstudegi allt fram að Akureyrarvöku í lok ágúst. Hér og þar er yfirskrift sýningarinnar, sumarsýningar Hofs í ár, og tilefnið er að Óli hefði orðið 75 ára þann 13. desember síðastliðinn.

Fæstar myndirnar á sýningunni hafa verið hengdar upp hérlendis áður; þær komu til landsins frá Opera galleríinu í London og hafa undanfarin ár verið sýndar víða á vegum gallerísins, að sögn Lilju Sigurðardóttur, ekkju listamannsins. 

Óli G. hóf ungur að stunda myndlist og hélt fyrstu sýninguna 1973, en helgaði sig alfarið myndlistinni frá 1993. Þau Lilja stofnuðu Listhúsið Festarklett 1997 og héldu þar ótal sýningar, og á vegum Opera sýndi Óli í Singapúr, Monte Carlo, London og New York.

Óli G. lést í janúar 2011, 65 ára að aldri, fimm dögum eftir að sýning á verkum hans var opnuð í Listasafni Reykjanesbæjar.

Vegna samkomutakmarkana verður ekki formleg opnun á föstudaginn.

Lilja Sigurðardóttir, ekkja Óla G., í Hofi í gær þegar unnið var við að hengja verkin upp. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.