Fara í efni
Menning

Mogginn: Tvær sýningar LA meðal fimm bestu

Mogginn: Tvær sýningar LA meðal fimm bestu

Leikfélag Akureyrar setti upp tvær sýningar á síðasta ári og báðar eru á meðal fimm bestu sýninga hérlendis í fyrra, að mati gagnrýnenda Morgunblaðsins. Þetta kemur fram í blaðinu um helgina. Þetta eru Skugga Sveinn, sem var á fjölunum í Samkomuhúsinu fyrri hluta árs, og Hamingjudagar, sem fyrst var sýnt nokkrum sinnum í Hofi og síðar sem gestasýning í Borgarleikhúsinu.

Frumleg og íhugul

„Það er gama að sjá hvernig Edda Björg Eyjólfsdóttir, Árni Pétur Guðjónsson og leikstjórinn Harpa Arnardóttir mæta þessu heildstæða verki, þar sem hver hreyfing og hver þögn er fyrirskipuð af höfundi,“ segir meðal annars í Morgunblaðinu. „ ... í huganum stendur eftir frábærlega unnin leiksýning, borin uppi af framúrskarandi vinnu leikaranna í einlægu samtali við einhverja mögnuðust rödd leikbókmenntanna,“ segir í tilvitnun í ritdóm um sýninguna í blaðinu.

„Það er bæði bölvun og blessun að Skugga-Sveinn sé hornsteinn íslenskrar leikritunar. Bölvun af því að þetta er nú ekki stórkostlega tilþrifamikið, formfagurt eða djúpt verk, þótt skemmtilegt sé. Blessun af nákvæmlega sömu ástæðu,“ segir í tilvitnun í leikdóm í Morgunblaðinu á sínum tíma. Þar segir einnig: „ [ ... ] Marta Nordal er einmitt einn frumlegasti og íhugulasti endurskoðandi klassískra íslenskra verka sem starfar í íslensku leikhúsi nú um stundir.“

  • Hinar sýningarnar sem gagnrýnendum Morgunblaðsins þóttu skara fram úr á árinu voru Fíflið, kveðju- og uppgjörssýning Karls Ágústs Úlfssonar í Tjarnarbíói (sem hann sýndi reyndar líka á Akureyri), Ellen B. í Þjóðleikhúsinu og Fortíðarvandi í Borgarleikhúsinu.

Yljar mér, segir Marta

„Þetta yljar mér mikið um hjartarætur,“ skrifaði Marta Nordal, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar á Facebook. Marta leikstýrði sjálf Skugga Sveini.

„Eitt af því sem mér finnst erfiðast við leikhúsið er að kveðja sumar sýningar. Eins og þessar. Þær verða svo tilfinningalega tengdar manni enda vinnan, hugsunin og væntumþykjan bakvið þær svo mikil. Oft sárt að sleppa. Sjá leikmyndina í gámnum. Stundum skrýtin þessi list augnabliksins. Listaverk fara og koma aldrei aftur,“ skrifar Marta.