Fara í efni
Menning

Mikil viðurkenning og gaman á afmælisári

Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri, á sýningu á síðasta ári þar sem meðal an…
Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri, á sýningu á síðasta ári þar sem meðal annars var fjallað um öskudaginn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Þetta er mikil viðurkenning fyrir okkur; það er frábært fyrir starfsfólk safnsins að fá svona viðurkenningu frá fagfólki, kollegum okkar,“ sagði Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri, við Akureyri.net í kjölfar þess að birtar voru fimm tilnefningar til Íslensku safnaverðlaunanna. Þar er Minjasafnið á blaði eins og hér var greint frá í gær. 

Minjasafnið á Akureyri var síðast tilnefnt til verðlaunanna árið 2008. „Tilnefningin gefur okkur byr undir báða vængi og er gott veganesti inn í afmælisárið. Það er frábært að fá tilnefningu á þessu ári,“ sagði Haraldur Þór, en 60 ára afmæli Minjasafnsins verður fagnað í ár. Það var stofnað árið 1962.

Valnefnd hafði orð á því hve starfsemi safnsins væri fagleg og fjölþætt, það hefði sinnt „söfnun og varðveislu menningarminja af mikilli alúð, með áherslu á söfnun ljósmynda sem er öflug samfélagslegstenging og samofin öllu starfi safnsins, einkum á síðustu áratugum.“

Haraldur sagði safnið starfa við alls kyns verkefni sem tengist samfélaginu. „Starfsemi safnsins er sannarlega ekki bara innan veggja þess,“ segir hann. „Það er til dæmis fræðsla gagnvart skólum og undanfarið í vaxandi mæli einnig gagnvart eldri borgurum. Safn sprettur úr ákveðnu samfélagi og við undirstrikum alls konar samfélagslega fleti í safnastarfi. Öðru vísi væri safnið varla orðið 60 ára. Við gerum það að sjálfsögðu með sýningum en ekki bara þar heldur eigum við mjög gott samtal við samfélagið; fólk lánar okkur hluti og veitir upplýsingar.“

Minjasafnið tilnefnt til safnaverðlaunanna