Fara í efni
Menning

Með orgel í töskunni á Tólf tóna korterinu

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir við orgel Akureyrarkirkju - sem er „ögn“ stærra en það sem hún notar á …
Sigrún Magna Þórsteinsdóttir við orgel Akureyrarkirkju - sem er „ögn“ stærra en það sem hún notar á tónleikunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

TÓLF TÓNA KORTERIÐ er tónleikaröð sem hófst um síðastliðna helgi í Listasafninu á Akureyri. Um er að ræða örstutta tónleika þar sem tónskáld og tónlistarmenn flytja verk sem kynna áheyrendum eitt og annað í framúrstefnu- og tilraunatónlist. Á upphafstónleikunum laugardaginn 15. maí flutti Emil Þorri Emilsson tónverk sitt, Tilviljun, fyrir blandað slagverk og rafhljóð.

Næstu tónleikar í Tólf tóna korterinu eru laugardaginn 22. maí í Listasafninu, klukkan 15:00-15:15 og 16:00-16:15. Þá dregur Sigrún Magna Þórsteinsdóttir organisti eitt lítið orgel upp úr farteski sínu, setur það saman og spilar svo á það. Um er að ræða krakkaorgelið, sem farið hefur um sveitir og bæi og börn sett það saman og spilað svo á það. Krakkar á öllum aldri eru velkomnir á tónleikana.

Sigrún Magna mun leika á þetta orgel Ævintýrið maurinn og engisprettuna sem sænska tónskáldið Erland Hildén samdi sérstaklega fyrir það. Hún mun svo frumflytja á rafpíanó tvö verk eftir Guðrúnu Ingimundardóttur tónskáld og skólastjóra Tónlistarskólans á Húsavík, Serial Romance I og II.

Aðgangseyrir að Tólf tóna korterinu er aðgöngumiði að Listasafninu (sjá listak.is). Ókeypis fyrir 18 ára og yngri og nema.

Tólf tóna korterið nýtur styrks Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra og Tónlistarsjóðs.
Umsjón með Tólf tóna korterinu hefur Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir.