Fara í efni
Menning

Margrét Eir leikur Mama Morton í Chicago

Leik- og söngkonan Margrét Eir hefur bæst í hóp þeirra sem taka þátt í uppsetningu Leikfélags Akureyrar á söngleiknum Chicago. Hún mun leika fangavörðinn Mama Morton. Þetta kemur fram á vef Menningarfélags Akureyrar.

Margrét Eir segist lengi hafa beðið eftir því að takast á við þetta hlutverk. „Ég hef séð Chicago mjög oft og þessi kona er algjör díva, fangelsið er hennar og hún getur verið bæði fyndin og hættuleg. Það eru margar frábærar leik- og söngkonur sem hafa tekist á við þetta hlutverk og ég ætla mér að fara með þetta upp á næsta stig,“ segir hún á vef MAk.

„Margrét Eir hefur starfað með helstu tónlistarmönnum landsins og tekið þátt í uppfærslum hjá Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og Leikfélagi Akureyrar, til að mynda í söngleiknum Óliver,“ segir í tilkynningunni. „Það er alltaf frábært að leika á Akureyri. Samkomuhúsið er svo magnað og skapar strax magnaða stemningu,“ segir Margrét Eir.

Söngleikurinn Chicago verður frumsýndur í janúar 2023. Áður hafði verið greint frá því Jóhanna Guðrún mun leika Velmu og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir Roxý.

Minnt er að miðasala sé í fullum gangi á www.mak.is og að forsölutilboð sé enn í gildi.