Fara í efni
Menning

Mannfólkið breytist í slím um helgina

Frá tónlistarhátíðinni á síðasta ári. Ljósmyndir: Chloé Ophelia

Tónlistarhátíðin Mannfólkið breytist í slím fer nú fram annað árið. Hátíðin hefst í dag og lýkur aðfararnótt sunnudagsins. Hátíðin er haldin að Óseyri 16 á Akureyri, þar sem Bátasmiðjan Vör var til húsa til fjölda ára. Blikkrás er nú með starfsemi í hluta húsnæðisins.

„Mannfólkið breytist í slím er tónlistarhátíð sem hefur verið haldin árlega af listakollektívinu MBS síðan 2018. Frá upphafi hefur sérstök áhersla verið lögð á þá miklu grósku sem er að finna í jaðarsenu tónlistar norðan heiða með framúrskarandi gestum annarsstaðar að. Einnig hefur gjörningalistafólk tekið þátt undanfarin þrjú ár. Mikið er lagt upp úr notkun á hráum og óhefðbundnum rýmum á skapandi hátt og þeim breytt í frambærilega tónleikastaði,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum hátíðarinnar.

Kælan Mikla nýkomin úr langri tónleikaferð

„Umgjörð hátíðarinnar er þannig hrjúf og framsækin en skipuleggjendum er mikilvægt að allt það mannfólk sem hátíðina sækir líði vel og geti gert það á eigin forsendum. Enginn aðgangseyrir er á Mannfólkið breytist í slím sem er með öllu óhagnaðardrifið en gestum er frjálst að leggja til framlög til stuðnings verkefninu. Að öllu jöfnu eru tveir þriðju hlutar atriða hátíðarinnar úr héraði en með þeirri nálgun miðar MBS að eflingu listafólks landsbyggða til móts við höfuðborgarsvæðið. Einnig er kynjahlutföllum flytjenda haldið sem jöfnustum svo búa megi til fyrirmyndir fyrir allt mannfólk. Úr verður tveggja daga menningarhátíð sem á sér enga hliðstæðu á landsvísu og er stærsti jaðarmenningarviðburður ársins á Akureyrarsvæðinu.“

Fjölbreytni atriða er aðalsmerki hátíðarinnar í ár eins og verið hefur. Að auki er meirihluti atriða úr heimabyggð sem tryggir aðgengi grasrótarinnar af landsbyggðinni sem helsta einkenni verkefnisins, segir í tilkynningunni. „Dagskráin í ár er hin fjölbreyttasta en einna hæst ber koma hljómsveitanna Kælan Mikla, sem nýverið lauk tónleikaferðalagi um Evrópu og Bandaríkin og endurkoma hinnar goðsagnakenndu sveitar Graveslime sem heldur fyrstu tónleika sína í 20 ár á Mannfólkið breytist í slím 2023.“

Eftirtalin koma fram á hátíðinni í ár:

Í dag, föstudag 28. júlí

  • 20.00 Drinni & The Dangerous Thoughts
  • 20.45 Dream The Name
  • 21.30 Setningarathöfn: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir verndari MBS 2023
  • 21.50 Fjallkonan flytur ræðu –  Fjallkona: Snorri Ásmundsson
  • 22.15 Sóðaskapur
  • 23.00 Á geigsgötum
  • 00.00 Devine Defilement
  • 01.00 Graveslime
  • 02.00 Hrotti

    Laugardag 29. júlí
  • 20.00 Poets, Bullets, Society
  • 20.30 Critical
  • 21.15 Hugarró
  • 22.00 The Validations
  • 22.45 Madonna + Child
  • 23.30 Saint Pete
  • 00.15 virgin orchestra
  • 01.15 Kælan mikla
  • 02.15 jadzia

Hlekkur á viðburð:
https://fb.me/e/2zZ8226bR

MBS á vef- og samfélagsmiðlum:

https://www.facebook.com/mbsskifur

https://www.instagram.com/mbsskifur/

https://mbsskifur.is/

  • Samstarfs- og styrktaraðilar MBS 2023 eru: Akureyrarbær, SSNE, Tónlistarsjóður, Norðurorka, Segull 67, HS Kerfi, Prentmet Oddi, Aflið & Akureyri Backpackers.