Fara í efni
Menning

„Mamma sagði alltaf að ég yrði rithöfundur!“

Akureyringurinn Helga Sigfúsdóttir sendi nýverið frá sér bókina, Valur eignast vinkonu. Þetta er önnur bók Helgu en sú fyrri – Valur eignast systkini – kom út fyrir tveimur árum.

Helga segir bækurnar einkum fyrir börn á leikskólaaldri, en þær gætu jafnvel hentað eldri krökkum, allt að 10 ára.

Hún viðurkennir að rithöfundur hafi lengi blundað í henni. „Ég hef alltaf haft rosalegan áhuga á bókum og hef lesið mikið. Þegar ég eignaðist fyrri strákinn minn, sem fæddist með skarð í vör, kviknaði hugmynd; ég skrifaði hana niður á blað og sá strax að ég gæti farið með þetta lengra. Ég hreinskrifaði því söguna og sendi til útgefanda,“ segir Helga við Akureyri.net. Bjarna Harðarsyni, forleggjara hjá Sæmundi bókaútgáfu, leist vel á og gaf út og nýja bókin kemur líka út á hans vegum.

„Mér hefur þótt vanta bækur um krakka í venjulegum aðstæðum, bækur sem víkka sjóndeildarhringinn og eru líka með fallegan boðskap. Mér finnst skemmtilegt að skrifa bækur þar sem börn upplifa söguna og geta fræðst við það að lesa; mér finnst það betra en þau lesi bækur sem eru eins og þekktar teiknimyndir sem börnin geta horft á og þekkja.“

Helga hefur búið í Þýskalandi í nærri fimm ár. „Maðurinn minn fékk vinnu þar, við fluttum 2017 og ég er í meistaranámi við HÍ; tek það í fjarnámi og skrifaði bækur inn á milli.“

Í bókinni segir af stelpu á leikskólanum sem Valur kynnist. Stelpan er nýflutt til Íslands, einmitt frá Þýskalandi. „Hún talar því annað tungumál en hinir krakkarnir, leikskólakennarinn kynnir þeim því landið og tungumálið og Val og vinum hans finnst það allt mjög spennandi. Þeir hlakka til að kynnast Evu og svo komast krakkarnir að því að þau eru ekki eins ólík og þau halda þótt þau tali ekki sama tungumálið,“ segir Helga.

Uppkast að næstu bók er tilbúið. „Það er spurning hvort hún kemur út á næsta ári – vonandi! Þessi nýja átti að koma út í fyrra en svo kom heimsfaraldur, þannig að maður veit aldrei.“

Jóhanna Þorleifsdóttir myndskreytti bókina og Helga kveðst afar ánægð með hennar framlag. „Myndirnar eru virkilega fallegar og litríkar. Ég er viss um að börnin munu hafa gaman af þeim.“

Helga er mikill bókaormur eins og áður kom fram. „Ég hef alltaf haft mikið ímyndunarafl og haft gaman af því að skrifa sögur. Mamma sagði alltaf að ég yrði rithöfundur, ætli megi ekki segja núna að hún hafi haft rétt fyrir sér!“