Fara í efni
Menning

„Maður getur ekki gengið með grjóthnullung í maganum“

„Við erum að tala um 65 ára sögu, og það hefur verið mjög fróðlegt fyrir mig að sjá þessar myndir saman,“ segir Guðmundur Ármann, myndlistamaður. „Elstu grafíkmyndirnar eru frá 1969, og svo fylgjum við ferlinum til 2026. Fyrstu málverkin eru mjög figuratív, raunsæ. En svo verða verkin meira abstrakt smám saman, þangað til ég er í raun í æfingum með form, línu og lit.“

Yfirlitssýning Guðmundar Ármanns, Aðflæði, verður opnuð á Listasafninu á morgun, laugardaginn 31. janúar kl. 15:00. Blaðamaður hitti listamanninn í vikunni, þar sem hann var langt kominn með að setja upp sýninguna ásamt Magnúsi Helgasyni sýningarstjóra.

 


Ferðalagið frá raunsæju málverki, og samfélagsrýni, yfir í náttúrulýsingar grunnstefa myndlistarinnar, er áhugavert. Guðmundur Ármann lýsir því, hvernig hann hefur ferðast í huganum sem listamaður, og fundið þörfina fyrir að beina sjónum að hinu fallega. „Okkur ber skylda til þess að reyna að gleðja fólk,“ segir hann.

„Mér finnst ég alltaf vera að vinna nær ljóðskáldunum og tónskáldunum, þegar ég er kominn í þessa konkret myndlist,“ segir Guðmundur Ármann. „Fyrirmyndin er fengin úr umhverfinu, en myndirnar heita til dæmis Vorvísur eða Skammdegisstef. Ég vinn með litina og formin í dúr og moll.“ 

Guðmundur Ármann. Mynd: Rakel Hinriksdóttir