Fara í efni
Menning

Madrid, Ragnar og Stones

Mynd Ragnars Hólm af Snæfellsjökli sem valin var á sýninguna í Madríd.

„Myndlistin er áhugamál mitt og ástríða,“ segir Ragnar Hólm Ragnarsson þegar Akureyri.net furðar sig á afköstum hans en Ragnar er einnig verkefnastjóri kynningarmála hjá Akureyrarbæ og skrifar auk þess mikið um fluguveiði í tímarit og á netið. „Sumir labba á fjöll, fara á skíði eða horfa á sjónvarpið. Ég mála.“

Eini Norðurlandabúinn

Nýjasta afrek Ragnars á sviði listanna er að vera valinn til að taka þátt í samsýningu á annað hundrað listamanna víðs vegar að úr heiminum sem opnuð verður í Madríd 24. júní nk. Ragnar Hólm er eini Norðurlandabúinn sem valinn var til að eiga verk á sýningunni en aðrir listamenn eru til að mynda frá Úkraínu, Tævan, Ítalíu, Kína, flestum löndum Suður-Ameríku og svo er ríflega fjórðungur listamannanna spænskur.

Ragnar er í Madríd yfir páskana og Akureyri.net sló á þráðinn til að heyra í honum hljóðið.

„Jú, auðvitað er þetta talsverður heiður en fyrst og fremst skemmtilegt því Madríd er að mörgu leyti annað heimili mitt í veröldinni. Á fáum stöðum kann ég betur við mig, nema ef vera skyldi á Akureyri. Mér skilst að það hafi hátt í 200 listamönnum verið hafnað og svo er völdum meisturum boðið að vera með verk á sýningunni, til að mynda Alvaro Castagnet frá Úrúgvæ sem er mikill snillingur.“

Þannig að þú hefur sótt um að vera með á þessari samsýningu?

„Já, maður sendir inn mynd af vatnslitamyndinni sinni og svo fer sérstök dómnefnd yfir allt sem berst. Þannig er þetta alltaf. Það er a.m.k. ekki enn komið að því að mér sé boðið sérstaklega eins og Alvaro,“ segir Ragnar og hlær.

Mikill vatnslitakúltúr

„Vatnslitakúltúrinn í Evrópu er ansi sterkur og liggur við að það sé offramboð af snillingum. Ég er eiginlega bara áhugamaður en sæki námskeið stíft þegar ég er á ferðalögum og reyni þannig að bæta smám saman við kunnáttu mína og hæfni. Listin er auðvitað eins og allt annað „bara vinna“ og maður uppsker eins og maður sáir.“

Nú er þetta eins konar vatnslitahátíð sem stendur í nokkra daga, ætlarðu að vera á staðnum?

„Þú veist að ég er í Madríd núna? Ég veit svo sem ekki hversu oft ég má fara þangað á þremur mánuðum en ég á bókaða ferð til Madrídar, reyndar örstutta, í lok maí með Aðalheiði Önnu dóttur minni til að sjá The Rolling Stones byrja Evróputúrinn sinn. Hvort ég komist aftur í lok júní? Ætli ég verði ekki að ræða það í góðu tómi við Þórgný yfirmann minn og Ásthildi bæjarstjóra?“

En hvað ertu annars að bardúsa í Madríd núna?

„Eiginlega akkúrat ekki neitt, bara slappa af, sofa, borða og njóta. Var samt boðið á vinnustofuna til Vicente Garcia í morgun en hann var þar með vatnslitanámskeið og leyfði Íslendingnum að fljóta með. Vicente er frábær málari sem verður með að ég held nokkur námskeið í Reykjavík í júní og ég vil óhikað leyfa mér að mæla með þeim. Það er eflaust hægt að bóka sig hjá Vatnslitafélagi Íslands sem fólk getur fundið á Facebook, þ.e.a.s. ef það er ekki orðið uppselt.

Vicente er mikill Íslandsvinur, hefur heimsótt landið nokkrum sinnum, og málað þar ýmis þekkt mótíf. Síðasta sem hann sagði við mig þegar við kvöddumst núna áðan var: „Þú hringir ef eitthvað kemur upp á. Ahora tienes una familia en Madrid,“ sem þýðir þú átt fjölskyldu í Madríd. Það þótti mér vænt um.“

Ragnar ásamt Andrés Arias og Vicente Garcia í Madrid fyrr í dag.