Fara í efni
Menning

Má bjóða þér að setjast hjá Degi?

Dagur, listaverk Steinunnar Þórarinsdóttur, situr fyrir utan Hrímland við Strandgötu. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Áttu erilsaman dag? Fallegan dag? Erfiðan dag? Hvernig sem dagurinn þinn er, getur þú sest hjá Degi og notið líðandi stundar.

Listaverk Steinunnar Þórarinsdóttur, Dagur, er úr endurunnu áli og situr á bekk við Strandgötu, hvernig sem að viðrar. „Að sitja kyrr á sama stað en samt að vera að ferðast var hugsun sem leitaði á mig þegar ég var að vinna verkið. Jónas Hallgrímsson vissi hvað hann söng.’’ segir Steinunn við Akureyri.net.

Verkið er hugsað sem kynlaus manneskja, sem gæti verið hver sem er eða bara við öll

Dagur situr fyrir utan hótelið Hrímland við Strandgötu, þar sem dagblaðið Dagur var til húsa áður fyrr. Margir Akureyringar kalla húsið enn Dagshúsið. Bjarni Gunnarsson er einn af eigendum Hrímlands, en verkið er í þeirra eigu. „Okkur fannst tilvalið að skreyta húsið með styttu,“ segir Bjarni. „Bekkurinn er mikið notaður af öllum sem ganga Strandgötuna, bæði ferðamönnum og heimafólki. Nú hafa þau einhvern til þess að tala við og tilefni til þess að setjast niður og jafnvel taka mynd.“

Steinunn Þórarinsdóttir innan um verk eftir sig. Mynd: Anton Brink

Steinunn Þórarinsdóttir lærði skúlptúrlistina á Ítalíu og í Bretlandi, en hún er frá Reykjavík. Hún hefur unnið sem listamaður í yfir 40 ár og sýnt verk sín víða um heim. Hún segir að yngri sonur sinn sé módelið fyrir Dag. ,,Hann er grunnurinn þó svo frummyndin taki breytingum í vinnsluferlinu. Verkið er hugsað sem kynlaus manneskja, sem gæti verið hver sem er eða bara við öll,“ segir Steinunn. „Hugmyndin er að fólk geti sest hjá Degi og notið líðandi stundar. Það má snerta hann, setjast hjá honum og verða hluti af honum. Mér þykir vænt um þetta samband sem verður milli fólks og verksins. Þannig lifnar það við og verður samferða okkar í gegnum Daginn“.