Fara í efni
Menning

Lýstu upp desember, með Magna og Summa

Glænýtt, akureyrskt jólalag – Lýstu upp desember – stendur nú heimsins börnum til boða, þökk sé nútímatækni og streymisveitunni Spotify, að ógleymdum höfundi og flytjanda vitaskuld. „Samið og tekið upp í 603 Akureyri,“ segir í tilkynningu vegna útgáfunnar.

Lag og texti er eftir Hvanndalsbróðirinn Sumarliða Helgason – Summi Hvanndal – og það er Magni Ásgeirsson sem syngur. „Drengirnir hafa leitt saman hesta sína í hinum ýmsu verkefnum fram að þessu en gefa nú út þetta lag saman til að ýta enn frekar undir jólastemninguna,“ segir í tilkynningunni.
 
Vert er að nefna að framundan eru jólatónleikarnir „Krissmass Spesjal“ á Græna hattinum föstudaginn 12. og laugardaginn 13. desember og þar verður lagið, Lýstu upp desember, flutt í fyrsta skipti opinberlega á tónleikum.
 
 
Á „Krissmass Spesjal“ koma saman Hvanndalsbræður, Magni Ásgeirsson og „efnilegur söngvari úr Skagafirði sem heitir Óskar Pétursson,“ eins og það er orðað í tilkynningunni. Fyrir þá sem ekki vita er rétt að taka fram að Óskar þessi varð sjötugur á jóladag fyrir tveimur árum og gjarnan kenndur við Álftagerði í Skagafirði. Enginn nýgræðingur á ferð, sem sagt!
 
Nýja lagið á Spotify: Lýstu upp desember