Lumarðu á hugmynd að verðlaunagrip?

Fiðringur á Norðurlandi er hæfileikakeppni ungmenna í grunnskólum Akureyrar og nágrennis, sem aðstandendur vonast til þess að teygi sig yfir alla Norðurland strax á næsta ári. Hún verður verður haldin í fyrsta sinn þann 5. maí í Hofi en þá flytja nemendur frá átta grunnskólum sitt atriði.
Fiðringur er að fyrirmynd Skrekks sem haldinn hefur verið í Reykjavík í 30 ár og Skjálftans á Suðurlandi sem leit fyrst ljós í fyrra.
„Nú auglýsum við eftir tillögum að farandverðlaunagrip sem fer heim í skóla sigurliðsins hvert ár. Áhugasamir listamenn á öllum aldri eru hvattir til að senda inn tillögu með greinagóðri lýsingu á gripnum ásamt skissum eða mynd á fidringur.nordurlandi@gmail.com fyrir 8. apríl næstkomandi,“ segir í tilkynningu.
Vinningstillagan hlýtur 100.000 krónur auk efniskostnaðar.