Fara í efni
Menning

Lögin hans Fúsa í Hofi á fimmtudaginn

Lögin hans Fúsa í Hofi á fimmtudaginn

Þeir eru fáir Íslendingarnir sem ekki þekkja Litlu fluguna og raula hana af og til einir eða í hóp. Og þannig er með fleiri lög eftir Sigfús Halldórsson tónskáld, listmálara og píanóleikara sem iðulega kom á mannfundi og flutti lög sín. Flest voru þau létt og leikandi, sannkallaðar dægurperlur, en vissulega átti Fúsi líka alvarlegri tóna.

Fimmtudaginn 12. ágúst verða tónleikar í Hofi þar sem Guðný Ósk Karlsdóttir flytur Sönglög Sigfúsar Halldórssonar, en með henni leika Aldís Bergsveinsdóttir á fiðlu, Tómas Leó Halldórsson og bassa og Þorvaldur Örn Davíðsson á píanó. Tónleikarnir hefjast klukkan 20.00 og miðar fást á mak.is.

Eins og titillinn bendir til eru tónleikarnir til heiðurs Sigfúsi Halldórssyni, sem byrjaði ungur að spila og semja lög sem á undrahraða sungu sig inn í samfélagið og urðu eins konar þjóðlög. Mörg lögin eru við ljóð Tómasar Guðmundsonar, til dæmis Dagný, Tondeleyó og Þín hvíta mynd. En Fúsi var einnig hirðtónskáld Leikfélags Reykjavíkur og á tónleikunum verða vel valin lög flutt frá því tímabili. Öruggt má telja að þarna verði einnig Litla flugan, Lítill fugl, Vegir liggja til allra átta og Íslenskt ástarljóð. Þessir tónleikar munu sannarlega vekja upp gamlar og góðar minningar.

Tónleikarnir Sönglög Sigfúsar Halldórssonar er hluti af Listviðburðaröð VERÐANDI í tilefni af 10+1 árs afmæli Menningarhússins Hofs.