Fara í efni
Menning

Listasumar: Lög og ljóð í Hofi og Davíðshúsi

Una Torfa og Haffi Ceasetone í Hofi í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Listasumar, sem hófst snemma í þessum mánuði, er fjölbreytt sem fyrr. Í gær var meðal annars boðið upp á tónleika með söngvaskáldinu Unu Torfa í Hömrum, minni salnum í Hofi, og ljóðalestur í Davíðshúsi þar sem Karólína Rós Ólafsdóttir flutti eigin ljóð.

Söngvaskáldið Una Torfa vakti gríðarlega lukku í Hofi þar sem hún söng og lék eigin tónlist ásamt gítarleikaranum Haffa Ceasetone. Una semur og spilar ljúfsár lög á íslensku um ástina og lífið og gaf hún út sína fyrstu plötu í júní árið 2022, eins og sagði í kynningu. Textar Unu eru fjölbreyttir og taka á ýmsum hliðum margslunginna tilfinninga. Salurinn var þéttsetinn þegar Una flutti sínar litlu, sögur í fallegum lögum.

Karólína Rós Ólafsdóttir les eigin ljóð í Davíðshúsi í gær.

Karólína Rós Ólafsdóttir er skáld frá Akureyri. Hún útskrifaðist með BA gráðu í ritlist frá Goldsmiths University í London og er sem stendur í meistaranámi í ritlist við Háskóla Íslands.

„Í ljóðum sínum skoðar hún gjarnan þemu í kringum vistrýni, femínisma, þjóðsögur og stafrænan veruleika. Hún skrifar mest ljóð og smáprósa en vinnur einnig með þýðingar og fræðitexta bæði á íslensku og ensku,“  sagði í kynningu á viðburðinum.

Verk hennar hafa birst í tímaritum á Íslandi og í Bretlandi, meðal annars í Volupté, SPAM zine, amberflora zine, Skandala, Störu og Pastel ritröð. Auk þessa hefur hún tekið þátt í og skrifað texta fyrir gjörninga og myndlistasýningar í Bretlandi, Þýskalandi og á Íslandi.

Hér má finna tengla á ýmis verkefni og texta Karólínu Rósar: https://linktr.ee/karolinarosolafs

Dagskrá Listasumars er mjög fjölbreytt sem fyrr. Smellið hér til að sjá nánari upplýsingar.

Una Torfa og Haffi Ceasetone í þéttsetnum Hömrum í Hofi í gær. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson