Fara í efni
Menning

Lísa í Undralandi í Verkmenntaskólanum

Núna á laugardaginn, 5. mars, frumsýnir Leikfélag VMA söngvaleikinn um Lísu í Undralandi eftir sögu Lewis Carrol í leikgerð Margrétar Örnólfsdóttur og við tónlist Dr. Gunna. Að þessu sinni er Undralandið í Gryfjunni í Verkmenntaskólanum. Þar hafa margar sýningar verið settar á svið í gegnum tíðina. Prýðisgóður salur.

Það er gleðilegt þegar nemendur framhaldsskóla leggja metnað sinn í að setja á svið vönduð leikverk. Tugir nemenda skólans leggja hönd að þessu verki. Leikendur eru alls 13 í átján hlutverkum. Leikstjóri er Sindri Swan en honum til hægri handar er Embla Björk Hróadóttir, sem jafnframt þjálfar söngvara, en dansstjóri er Eva Reykjalín. Fjöldi nemenda sér um svið, búninga, hár og förðun og fleira sem nauðsynlegt er til að halda utan um stórt viðfangsefni áhugaleikhúss.

Strangar æfingar hafa farið fram að undanförnu, en að sögn leikstjórans hefur vinnan markast nokkuð af Covid, sem er alls ekki lokið, og fleiri utanaðkomandi áhrifum. Upphaflega hafi verið ætlað að hafa hljómsveit á sviði, en meðal annars til að smækka hópinn og einfalda uppfærsluna út af ástandinu hafi verið ákveðið að nota upptökur tónskáldsins sem undirleik.

Söguna um Lísu í Undralandi eftir Lewis Carrol þekkja flestir og sagan hefur komið út á flestum heimsins málum, komið út sem teiknimyndasaga, verið sett á svið og í kvikmyndir í ýmsum gerðum, en þessi íslenska gerð er kannski okkar Lísa. Og leikgleði og metnaður unga fólksins skilar áhorfendum prýðilegri fjölskylduskemmtun, það er næsta víst.

Sýningarnar fara sem fyrr segir fram í Gryfjunni í Verkmenntaskólanum. Miða er hægt að panta á https://thorduna.is/vidburdir en þeir eru seldir við innganginn.

Frumsýning er laugardaginn 5. mars. Næstu sýningar eru 6. mars, 11. mars og 12. mars.

Myndirnar tók Hilmar Friðjónsson, þær eru frá æfingu á Lísu í Undralandi og ásamt fleirum á vef Verkmenntaskólans.