Fara í efni
Menning

Lára Sóley endurráðin framkvæmdastjóri

Stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur ákveðið að endurráða Láru Sóleyju Jóhannsdóttur í stöðu framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Lára Sóley hefur gengt stöðu framkvæmdastjóra frá sumri 2019 en ráðið er í stöðuna til fjögurra ára í senn.

Lára Sóley lauk meistaragráðu í listastjórnun frá Royal Welsh College of Music and Drama árið 2019. Hún starfaði um árabil sem fiðluleikari og sjálfstætt starfandi verkefnastjóri. Á árunum 2010-2014 var hún verkefnastjóri við Menningarhúsið Hof og gegndi starfi framkvæmdastjóra Hofs í afleysingum. Lára Sóley er 41 árs, gift Hjalta Jónssyni sálfræðingi og tónlistarmanni og eiga þau þrjú börn.

Krefjandi og gefandi

„Ég er gríðarlega þakklát fyrir það mikla traust sem mér er sýnt. Að vera framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands er í senn krefjandi og gefandi, að vinna að því sem er mér hvað dýrmætast í lífinu, tónlistinni, á hverjum degi með framúrskarandi hljóðfæraleikurum og starfsfólki hljómsveitarinnar eru forréttindi. Metnaður og elja hljómsveitarinnar til að færa áheyrendum á öllum aldri, um allt land og allan heim, tónlist í hæsta gæðaflokki, er einstakur. Ég hlakka mikið til samvinnunnar á komandi árum og mun svo sannarlega gera mitt besta til þess að Sinfóníuhljómsveitin haldi áfram að vaxa og dafna,“ segir Lára Sóley í tilkynningu frá hljómsveitinni.

„Sinfóníuhljómsveit Íslands gegnir lykilhlutverki í íslensku menningarlífi og þar hefur verið unnið mjög gott starf undanfarin ár við krefjandi aðstæður,“ segir Sigurður Hannesson, formaður stjórnar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, í sömu tilkynningu. „Fagmennska og metnaður einkenna starf Sinfóníuhljómsveitarinnar sem hefur á að skipa framúrskarandi starfsfólki. Lára Sóley Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri hefur skilað mjög góðu starfi undanfarin fjögur ár og það var einhugur innan stjórnar um að endurráða hana til næstu fjögurra ára. Framundan eru spennandi tímar hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og ég er ánægður með að Lára Sóley muni áfram gegna starfi framkvæmdastjóra.“