Fara í efni
Menning

Langþráð stund og frábær stemning

Fræbbblarnir á sviði Verkstæðisins í gærkvöldi. Ljósmynd: Þorsteinn Gretar Gunnarsson.

Fyrra kvöld tónlistarhátíðarinnar Eyrarrokks þótti frábærlega heppnað. Hátíðin er haldin í fyrsta skipti um helgina; í gærkvöldi stigu sex hljómsveitir á svið og aðrar sex mæta til leiks í kvöld, á Verkstæðinu neðst við Strandgötu.

Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson, einn forsprakka hátíðarinnar, var í sjöunda himni í morgun. „Stemningin var frábær og fullt hús af fólki,“ sagði hann við Akureyri.net. „Kvöldið í kvöld lofar virkilega góðu og ekki nokkur vafi á að það verður rífandi stemning,“ sagði Rögnvaldur og tók mið af viðtökunum í gær. „Við finnum að það er mikill áhugi á að festa þessa hátíð í sessi.“

Langþráð og frábært

„Það var stórkostlegt að upplifa frumaflið þarna á Eyrinni. Frábært framtak,“ sagði einn tónleikagesta við Akureyri.net.

Annar sagði það engar ýkjur að kvöldið hefði verið frábært. „Þetta var sannarlega langþráð, enda ár og öld síðan alvöru rokktónleikar með þessu sniði hafa verið haldnir hér í bæ. Ég fékk bara gæsahúð þegar hávaðinn byrjaði að hríslast um líkamann. Frábært framtak hjá þeim félögum, fullt af fólki mætti og skemmti sér vel og fallega,“ sagði hann. Stundin hefði augljóslega einnig verið langþráð fyrir hljómsveitirnar; „þær voru greinilega mjög spenntar fyrir þessum viðburði, djöfluðust af mikilli innlifun og stemningin var ekki síðri hjá þeim en áheyrendum. Ég sat til borðs með pari að sunnan, sem kom gagngert norður á þennan viðburð og fannst kvöldið stórkostlegt,“ sagði viðmælandinn og bætti við: „Ég hlakka til að fylgjast með þessari hátíð vaxa og eflast á komandi árum.“

Dagskráin í kvöld hefst klukkan 20.00. Þessir koma fram:

  • Langi Seli og skuggarnir
  • Dúkkulísurnar
  • Elín Helena
  • Helgi og Hljóðfæraleikararnir
  • DDT skordýraeitur
  • Biggi Maus 

Chernobyl Jazz Club. Ljósmynd: Valur Sæmundsson. 

Lost. Ljósmynd: Valur Sæmundsson. 

Tvö dónaleg haust. Ljósmynd: Þorsteinn G. Gunnarsson. 

Dr. Gunni og hljómsveit. Ljósmynd: Þorsteinn G. Gunnarsson. 

Fræbbblarnir. Ljósmynd: Þorsteinn G. Gunnarsson.