Fara í efni
Menning

La Traviata í Hofi um næstu helgi

Það er ekki á hverjum degi sem okkur gefst tækifæri til að sjá og heyra óperur hér úti á landsbyggðinni, en nú er tækifærið að renna upp í hendur okkar og í Hofi verða tvær sýningar á hinni frægu óperu La Traviata eftir Giuseppe Verdi laugardaginn 13. nóvember klukkan 20.00 og aukasýning verður sunnudaginn 14. nóvember klukkan 16.00.

Íslenska óperan sýndi La Traviata í Hörpu fyrir fullu húsi vorið 2019, en þá varð að gera hlé á sýningum. Sýnt verður á ný í Hörpu þessa helgi og í Hamraborgi í Hofi eftir viku. Þetta er tímamótaviðburður, ekki einasta að Íslenska óperan komi með svona viðamikla sýningu norður heldur hitt, að þetta er í fyrsta sinn sem Íslenska óperan og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands vinna saman að óperuuppfærslu hér og einnig í Reykjavík.

Kamilíufrúin, skáldsaga Alexandre Dumas, kom út í Frakklandi 1848 og vakti gríðarlega athygli svo einungis 5 árum síðar hafði Giuseppe Verdi samið óperuna La Traviata á grundvelli þessarar skáldsögu og var hún frumsýnd í Feneyjum 6. mars 1853. Þessi ópera um forboðnar ástir, frelsi og lífsgleði er í hópi klassískra óperuverka sem koma á svið um allan heim með jöfnu millibili, enda þykir hún einstaklega fallegt verk.

Það er Herdís Anna Jónasdóttir sem fer með hlutverk Víólettu, aðalhlutverkið, en hún hlaut Grímuverðlaunin sem söngvari ársins fyrir túlkun sína á þeirri stúlku. Í öðrum hlutverkum eru Rocco Rupolo, Hrólfur Sæmundsson, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, Hrafnhildur Árnadóttir, Snorri Wium, Oddur Arnþór Jónsson, Aðalsteinn Már Ólafsson, Valdimar Hilmarsson og Kór íslensku óperunnar undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar.

Hljósmveitarstjórinn er hin finnska Anna-Maria Helsing, sem áður hefur komið við sögu Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Leikstjóri er Oriol Tomas, Simon Guilbault gerði leikmynd, Sébastien Dionne hannaði búninga, Erwann Bernard hannaði lýsingu og videó hannaði Félix Fradet-Faquy.

Uppselt er á laugardagssýninguna klukkan 20, en enn eru fáanlegir miðar á aukasýninguna klukkan 16 á sunnudag. Miðarnir fást á tix.is.

Rétt er að taka fram að í ljósi síðustu tíðinda af veirumálum verður gestum skylt að vera með grímu á sýningunum. Hamraborg er hins vegar innan fjöldatakmarkana og því verða sýningarnar hér að öðru leyti ótruflaðar. En hver setur fyrir sig að vera með grímu á gleðiviðburði eins og óperusýningu á landsbyggðinni?