Fara í efni
Menning

Kyrrð í Mjólkurbúðinni en Breiköpp í Deiglunni

Kyrrð í Mjólkurbúðinni en Breiköpp í Deiglunni

Tveir sýningar verða opnaðar utan Listasafnsins í dag, á Gildeginum.

  • Jónína Mjöll Þormóðsdóttir – Kyrrð 

Sýning Jónínu Mjallar Þormóðsdóttur, Kyrrð, verður opnuð í dag í Mjólkurbúðinni í Listagilinu. Þar sýnir Jónína Mjöll ný verk sem unnin eru úr hvítum fjöðrum og sýna mýkt og hreinleika, að því er segir í tilkynningu. „Jónína leitar fanga í íslenskri náttúru og eru verk sýningarinnar innblásin af henni. Þegar rýnt er í verkin má þar greina hverfulleika, endurspeglun og smæð manneskjunnar, en jafnframt kærleika og viðkvæmni lífsins.“

Jónína Mjöll hefur verið búsett í Þýskalandi síðastliðin 30 ár þar sem hún starfar sem myndlistarmaður og myndmeðferðarfræðingur. Hún útskrifaðist með meistaragráðu í myndlist frá University of the Arts í Bremen 2017 og hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum m.a. í Bremen, Berlín, Bonn, Hanoi, Nagoya, Osterholz-Scharmbeck, Akureyri og Keflavík.

Sýningin stendur til og með 12. desember og verður opin alla daga kl. 12.00-18.00.

  • Sigbjørn Bratlie  – Breiköpp

Myndbandsverkið Breiköpp eftir Sigbjørn Bratlie, sem er 10 mínútna langt, verður sýnt í Deiglunni

Í tilkynningu segir: „Myndbandið er byggt á klisjunni um „breiköpp senu“ eins og sést í hundruðum Hollywood kvikmynda. Hægt er að skilja hana bæði sem stuttmynd og sem myndbandsupptöku af listrænum gjörningi: Maður (listamaðurinn sjálfur) hefur ákveðið að hætta með kærustunni sinni og valdi sér huggulegan, rómantískan veitingastað til þess, í von um að hún verði ekki með vesen. En þar sem samtalið fer fram á íslensku, tungumáli sem maðurinn talar mjög illa, verður það að bardaga þar sem kærastan, sem talar móðurmálið, getur snúið upp á merkingu orðs eða orðasambands á sekúndubroti og í kjölfarið stýra samtalinu í þá átt sem hún vill.“

Þar segir einnig:

„Ég er 48 ára, fæddur í Osló og útskrifaðist frá Central Saint Martins College of Art and Design í London árið 2002. Ég er búsettur í bæði Osló og Gdynia, á pólsku Eystrasaltsströndinni. Mínir miðlar eru myndbandsverk, innsetningar og málverk. Listaverkin mín hafa huglægan, greinandi og of húmorískan blæ. Síðustu níu ár hafa myndbandsverkin mín snúist um þemað tungumál, eða nánar tiltekið; erlend tungumál.

Þessi myndbönd eru lokaútkoma gjörningaferlis þar sem ég eyði fyrst um það bil einu ári í að kenna sjálfum mér (misgagnleg) erlend tungumál og síðan bý ég til listverkefni þar sem ég á samskipti við einhvern á þessu tungumáli. Mörg þessara verkefna fjalla um aðstæður þar sem aðgangur að merkingu og gangkvæmum skilningi er hamlað með skorti á orðaforða, misskilning, slæmri málfræði eða framburði.“