Fara í efni
Menning

Kristinn G. og Rebekka Kühnis í Listasafninu

Kristinn G. Jóhannsson og Brynhildur dóttir hans, sem er sýningarstjóri.
Kristinn G. Jóhannsson og Brynhildur dóttir hans, sem er sýningarstjóri.

Tvær spennandi sýningar verða opnaðar í Listasafninu á Akureyri næsta laugardag, 24. september, klukkan 15.00. Annars vegar sýning Kristins G. Jóhannssonar, Málverk, hins vegar Innan víðáttunnar þar sem Rebekku Kühnis sýnir verk.

Kristinn G., sem verður 86 ára í desember og sinnir myndlistinni daglega, hélt fyrst sýningu fyrir 68 árum! „Ég hefi árum saman gengið til litgrasa og forma í brekkurnar og heiðina sem við mér blasa dag hvern og í spegil Pollsins og í vaðlana, ofið saman litbrigði jarðarinnar með mínum hætti. Í þessum nýlegu málverkum leitar landslagið og málverkið eins konar jafnvægis, sátta,“ segir hann í tilkynningu frá Listasafninu. 

Kristinn G. Jóhannsson er fæddur 1936 og nam myndlist á Akureyri, í Reykjavík og Edinburgh College of Art. Hann lauk kennaraprófi 1962 og starfaði við kennslu og skólastjórn í tæpa fjóra áratugi. Kristinn efndi til fyrstu sýningar sinnar á Akureyri 1954, en sýndi fyrst í Reykjavík 1962 í Bogasal Þjóðminjasafnsins og sama ár tók hann í fyrsta sinn þátt í Haustsýningu FÍM í Listamannaskálanum. Hann hefur síðan verið virkur á sýningavettvangi. Auk málverka liggja eftir Kristin grafíkverk þar sem hann sækir efni í gamlan íslenskan útskurð og vefnað. Hann hefur myndskreytt fjölda bóka m.a. Nonnabækur og þjóðsögur.

Sýningarstjóri er Brynhildur Kristinsdóttir.

Málverk um birtuna, Kristinn G. Jóhansson, 2022

Landslag skynjunar

Rebekka Kühnis er frá Windisch í Sviss, fædd 1976 og útskrifaðist með meistaragráðu í listkennslufræðum frá Hochschule der Künste í Bern. Síðan hefur hún starfað sem listakona og myndlistarkennari. Hún flutti til Akureyrar 2015.

„Ég hef alla tíð haft listræna þörf fyrir að leysa upp umhverfi mitt, eða í það minnsta að umbreyta því í eitthvað loftkenndara og óljósara,“ segir Rebekka. „Ég upplifi íslenska náttúru sem ósnortna og ekki eins skilgreinda og afmarkaða eins og náttúruna í heimalandi mínu. Það er eins og allt sé kvikt og breytilegt og að ég sé hluti þess alls. Þessi skynjun birtist í túlkun minni á íslensku landslagi. Verkin einkennast af fjölmörgum viðfangsefnum, s.s. tvíræðni, gagnsæi, hreyfingu og marglögun. Kannanir á möguleikum línulegrar framsetningar leika stórt hlutverk í þessu samhengi. Hingað til hef ég aðallega notað grafíska tækni í verkum mínum, en á þessari sýningu mun ég í fyrsta sinn sýna olíumálverk,“ segir listakonan.

Rebekka Kühnis, Mælifell, 2021