Fara í efni
Menning

Köttur með rauð augu og dularfullir hestar

Hrund Hlöðversdóttir með nýju bókina. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Út er komin bókin ÓGN, ráðgátan um Dísar-Svan eftir Hrund Hlöðversdóttur, skólastjóra Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit. Bókin er ævintýra- og spennubók fyrir ungmenni og ævintýraþyrsta fullorðna.

Bókin fjallar um Svandísi, fjórtán ára stelpu, sem flytur úr borginni norður í land. Þar eignast hún vinina Brján og Sylvíu en saknar vinkonu sinnar Láru og getur ekki beðið eftir að hún komi í heimsókn í jólafríinu. Í kringum Svandísi er margt einkennilegt á kreiki. Köttur með rauð augu, dularfullir hestar og fólk sem ef til vill er annað en það sýnist vera. Svandís flækist inn í baráttu góðs og ills, kynnist ástinni og þarf ásamt vinum sínum að glíma við ógurlegar kynjaskepnur.

Sagan byggir á þjóðsagnaarfi Íslendinga og tengir saman tvo heima, raunheima sem við þekkjum öll og hulduheima sem færri þekkja; og hún fjallar um vináttu, tengsl við fjölskyldu, náttúru og tónlist. Sögusviðið er við Hraunsvatn undir Hraundranganum fagra í Öxnadal. Þangað fór Hrund með nemendum sínum fyrir sjö árum síðan. Við vatnið er heill ævintýraheimur og mikil náttúrufegurð. Hrund varð uppnuminn af töfrum staðarins og hugmyndin að bókinni varð til.

Bók númer tvö þegar tilbúin

Í samtali við Akureyri.net sagði Hrund að sem barn hefði hún haft mjög frjótt ímyndunarafl. Skuggafólkið í bókinni hennar er afsprengi þess sem hún taldi sig hafa séð fimm eða sex ára gömul og hafði miklar hugmyndir í kollinum um þá upplifun.

En er von á fleiri bókum? „Já, ég er búin að skrifa bók númer tvö, sem er framhald þessarar bókar. Þar fer ég inn á aðra hluta í þjóðsögunum og fleiri kynjaverur koma við sögu, svo sem skottur, mórar og draugar. Framhaldið gerist að sumri, á sumarsólstöðum, en Dísar-Svanur gerist að vetri.“

Hrund bindur vonir við að sú bók komi út á næsta ári. Og hún lætur ekki þar við sitja því þriðja bókin hefur nú þegar myndast í kollinum á henni, eins og hún orðar það, og nokkrir kaflar eru þegar komnir á blað.

Listataugin í ættinni

Hrund er fleira til lista lagt en ritstörf. Hún hefur stundað nám í myndlist, lokið sex stigum í píanóleik og fimm stigum í klassískum söng. Hún hefur auk þess lokið grunnprófi í harmonikuleik. Hún er enn að læra á nikku og stundar það nám við Tónlistarskóla Eyjafjarðar hjá Jóni Þorsteini Reynissyni og einnig syngur hún í kirkjukór Laugalandsprestakalls.

Hrund á ekki langt að sækja listina því faðir hennar Jón Hlöðver Áskelsson er tónskáld og var lengi skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri. Þá var Áskell Jónsson föðurafi hennar organisti í áratugi. Móðir hennar Sæbjörg Jónsdóttir var söngkona í hljómsveit í fyrr á árum, t.a.m. í hljómsveitinni Laxar og Lalla.

„Sem barn var sjálfsagt að maður væri að læra tónlist og hún er mér hugleikin; hefur alltaf fylgt mér. Það er til dæmis lag í bókinni minni sem skiptir miklu máli í söguþræðinum.“ Hrund finnst mikilvægt að hafa lært, og kynnst tónlistinni og vita hvernig hún er uppbyggð þó hana hafi ekki langað að gera hana að ævistarfi sínu.

„Maður á að elta drauma sína“

Það liggur gríðarleg vinna að baki bókar sem komin er í hendur lesenda. En Hrund hefur það mottó að maður eigi að elta draumana sína. „Ef maður er með einhverja hugmynd þá þarf maður að hafa trú á henni og láta hana verða að veruleika“, segir Hrund að lokum.

Þessa dagana er Hrund að kynna bókina og hefur í nógu að snúast. Næsta kynning verður í Eymundsson Hafnarstræti 18. des. frá 14:00-16:00 þar sem hún mun árita bók sína. Einnig er hægt að kaupa ÓGN, ráðgátan um Dísar-Svan beint af höfundi með að senda henni skilaboð á facebook, senda póst á hrund.hlodversdottir@gmail.com eða hringja í síma 699 4209.

Útgefandi er bókaútgáfan Hólar. Íris Auður Jónsdóttir listamaður málaði myndina á bókarkápunni og hún og börnin hennar, Emil Logi Heimisson og Agnes Lóa Heimisdóttir teiknuðu myndirnar inn í bókina.