Fara í efni
Menning

Kór Akureyrarkirkju kallar eftir liðsstyrk

Þorvaldur Örn Davíðsson, kórstjóri Kórs Akureyrarkirkju og organisti. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Það er rosalega spennandi vetur framundan,“ segir Þorvaldur Örn Davíðsson, stjórnandi Kórs Akureyrarkirkju og organisti. „Á döfinni er að setja upp stórt og mikið verk á skírdag með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.“ Kórinn ætlar ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur, heldur flytja Jóhannesarpassíu J.S. Bach í Hofi. Þorvaldur segir að æfingar hefjist fljótlega í haust þó að enn sé langt í tónleikana, enda í mörg horn að líta.

Stór tónleikaverkefni ár eftir ár

„Við tókum þátt í öðru mjög stóru verkefni með sömu hljómsveit á síðasta starfsári, en þá fluttum við 9. sinfóníu Beethovens í þýðingu Matthíasar Jochumssonar, Óðinn til gleðinnar.“ Þorvaldur segir að það verkefni hafi staðið kórnum sérstaklega nærri, vegna þess hve djúpstæð tengingin er við Matthías, enda heitir kirkjan Akureyrarkirkja - kirkja Matthíasar Jochumssonar og útsýnið út um skrifstofuglugga Þorvalds er beint að heimili þjóðskáldsins, Sigurhæðum. 

Í ár er sérstakt tilefni, en þjóðsöngurinn okkar er 150 ára. Hann var frumfluttur um verslunarmannahelgi í Dómkirkjunni fyrir 150 árum síðan

„Ef ég fæ að tala meira um Matthías, þá höldum við alltaf afmælishátíð kirkjunnar,“ segir Þorvaldur, „en það er alltaf um svipað leyti og afmæli Matthíasar sem er 11. nóvember. Þá syngur allur kórinn við hátíðlega athöfn. Í ár er sérstakt tilefni, en þjóðsöngurinn okkar er 150 ára. Hann var frumfluttur um verslunarmannahelgi í Dómkirkjunni fyrir 150 árum síðan.“ Eins og flest vita er þjóðsöngurinn, 'Ó guð vors lands', eða Lofsöngurinn, ljóð Matthíasar við lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar.

„Mér þykir mjög vænt um Matthías,“ segir Þorvaldur. „Hann er svo áhugaverð persóna. Guðspekin hans, feminisminn og margt fleira. Þýðingarnar, leikritin, ljóðin og allt það. Skáldin okkar hérna fyrir norðan, Jónas, Davíð og Matthías hafa allir mjög áhugaverða en ólíka guðspeki sem er mjög gaman að kafa ofan í.“

 

Mynd af kórnum af Facebook síðu kórsins. 

Á höttunum eftir liðsstyrk

„Jóhannesarpassía Bach er um það bil tveggja tíma verk, samið fyrir hljómsveit, kór og einsöngvara,“ segir Þorvaldur. „Píslarsaga Jesú Krists er rakin með orðum Jóhannesar, úr guðspjalli hans í Biblíunni. Ég er ofboðslega spenntur fyrir því að hefjast handa við að æfa verkið, en fyrst ætlum við að leita að liðsstyrk fyrir veturinn.“

Við skoðum það hvar raddsvið viðkomandi liggur og svo væri gott að hafa eitthvað lítið lag í handraðanum. Því einfaldara, því betra

Kór Akureyrarkirkju er fjölmennur, félagar eru yfirleitt á bilinu 70-85 manns. Kórinn getur alltaf á sig blómum bætt, og nú hefur Þorvaldur auglýst eftir nýjum röddum. „Við ætlum að hafa prufur á sunnudaginn kemur, 25. ágúst, hérna í kirkjunni,“ segir hann. „Það er þessi skipulagði prufudagur. Þá erum við hérna saman, ég og Eyþór Ingi sem er líka organisti hérna. Fólk þarf ekki að standa fyrir framan hóp af fólki og syngja, en það þyrfti að standa fyrir framan okkur tvo. Við skoðum það hvar raddsvið viðkomandi liggur og svo væri gott að hafa eitthvað lítið lag í handraðanum. Því einfaldara, því betra.“ Þorvaldur bendir á að ef þessi dagur hentar ekki fyrir áhugasaman einstakling, má endilega hafa samband.

Ástríða og áhugi fyrir söng vegur þungt

„Öll reynsla og nám í tónlist er kostur,“ segir Þorvaldur, aðspurður um hverskonar kröfur hann gerir til nýrra söngvara. „En það er staðreynd, hvort sem ég miða við kórinn hérna eða í Langholtskirkju þar sem ég starfaði í Reykjavík, að það er oft ekki síðra að fá fólk inn í kórastarfið sem er drifið af ástríðu og áhuga. Það getur vegið upp á móti söngþjálfun og nótnalestri. Auðvitað er samt lágmark að fólk geti haldið lagi,“ bætir hann svo við brosandi. Það eru sem sagt ekki kröfur um að hafa lært söng né að geta lesið nótur, til þess að koma í söngprufur fyrir Kór Akureyrarkirkju.

Fjölbreyttur hópur söngvara á öllum aldri

„Í blönduðum kór eru oft örlítið fleiri konur,“ segir Þorvaldur, og hvetur því sérstaklega karla til þess að koma í prufur. „Meðalaldurinn er alltaf að lækka, það er sífellt meiri aðsókn yngra fólks að taka þátt í starfinu. Söngnemendur í tónlistarskólum bæjarins hafa verið að koma til okkar og fleiri. Það er góð dreifing af samfélaginu með okkur, það er dásamlegt fyrir mig að hafa svona blöndu af ungum röddum og þroskuðum að vinna með.“

„Við höfum fengið til okkar fólk sem er að byrja að læra íslensku,“ segir Þorvaldur, en blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort að íslenskukunnátta sé skilyrði. „Það hefur ekki verið nein hindrun, þau hafa kannski fengið stuðning frá sessunaut og ef eitthvað er þá er fólk jafnvel að græða á því að syngja með kórnum, og læra málið hraðar. Það er mjög gaman að fá fólk frá fleiri löndum í hópinn.“ Þorvaldur bendir á að stóra verkefnið í ár, Jóhannesarpassían er á þýsku, þannig að þar er íslenskukunnátta vissulega ekki nauðsynleg.  

Fjölbreytt starf allt árið

„Við höfum fasta pósta yfir árið,“ segir Þorvaldur. „Afmælishátíðin, stórir og vinsælir jólatónleikar og svo syngur kórinn náttúrulega við helgihald kirkjunnar. Í svona stóru prestakalli er náttúrulega mikið um helgihald, en vegna þess hve kórinn er fjölmennur þá dreifum við álaginu á fjóra hópa.“

Svo er náttúrulega góð stemning í kaffipásum á kóræfingum þar sem fólk nýtur þess að vera saman

Þorvaldur segir að félagslíf kórsins sé mjög öflugt. „Þetta er fjölmennur hópur og það er alltaf eitthvað í gangi. Nýliðagleði að hausti, teiti eftir jólasöngva og hitt og þetta. Svo er náttúrulega góð stemning í kaffipásum á kóræfingum þar sem fólk nýtur þess að vera saman. Svo má alveg kasta því fram, að þetta er til dæmis frábært tækifæri fyrir söngelskt fólk sem er nýflutt í bæinn. Hérna er gullið tækifæri til þess að komast í öflugt félagsstarf.“

Allir eru jafnfætis

Akureyringar hafa sumstaðar það orð á sér, að vera lokaðir og að það sé erfitt að kynnast þeim. „Ég upplifði það reyndar alls ekki sjálfur,“ segir Þorvaldur, en hann kom fyrst hingað þegar hann hóf nám í Menntaskólanum á Akureyri og bjó á heimavistinni. Hann er upphaflega frá Eskifirði. „Ég geri alls ekki lítið úr þeim sem hafa upplifað þetta, en kórinn er ein leið, til þess að kynnast fólki. Svo er gott að taka fram, að kórinn er þannig félagsskapur að hér eru allir jafnir. Burtséð frá því hvað fólk hefur verið lengi með eða hvort það er tónlistarmenntað eða ekki, allir eru jafnfætis.“

Facebook síða Kórs Akureyrarkirkju