Fara í efni
Menning

Konan og drekinn tvær helgar í Deiglunni

Konan og drekinn tvær helgar í Deiglunni

Listakonan Ósk, Sigurbjörg Ósk Sigurðardóttir, heldur málverkasýninguna Konan og drekinn í Deiglunni næstu tvær helgar, 13. og 14. nóvember og 20. og 21. nóvember klukkan 14-17 alla dagana.

Ósk segir sýninguna samanstanda af málverkum og sögu. Á sýningunni séu 11 málverk í stærðinni 30x40 cm unnin á þykkan vatnslitapappír. Eitt verkið sé 70x100 cm á striga. Þau séu flest unnin með blandaðri tækni, akríl, vatnslitum, pennum og stundum pappír.

Um sýninguna og verkefnið segir Ósk: „Sagan sem fylgir með málverkunum fjallar um konu sem áttar sig á því að þótt hennar daglega líf sé harla gott þá þyrstir hana í eitthvað meira. Frelsið kallar á hana og hún leggur af stað í ferðalag. Á leiðinni safnar hún þekkingu og reynslu og finnur ýmislegt sem veitir henni meiri lífsfyllingu. Hún upplifir líka á eigin skinni að lífið á það til að ganga í bylgjum, ýmist upp eða niður. Á uppleiðinni ríkir gleði og tilhlökkun en á niðurleiðinni taka erfiðari tilfinningar við og þá getur verið snúið að halda dampi.

Á vegferðinni hittir konan dreka og á við hann djúpstætt samtal sem verður til þess að hún öðlast meiri sjálfsþekkingu. Sagan er í raun hetjuför konunnar frá landi hins þekkta yfir í land hins óþekkta, ævintýrið. Hún heyrir kall frelsisins og leggur af stað, sigrast á erfiðleikunum og kemur til baka með gjafir sem nýtast ekki einungis henni heldur líka samferðamönnum hennar.“

Föstudaginn 12. nóvember kemur út þriggja laga plata á streymisveitum sem ber heiti sýningarinnar upp á enska tungu, eða The Woman and the Dragon. Haukur Pálmason, maður Óskar, samdi lögin undir áhrifum myndanna. Platan er gefin út undir listamannsnafninu Arctic Hawk.

Nánar um Ósk og verk hennar á heimasíðunni skopunarkraftur.is