Fara í efni
Menning

Klassík á tvennum tónleikum í Verðandi

Verðandi, viðburðaröð ungs listafólks á sumri í Hofi, heldur áfram nú beggja vegna mánaðamótanna. Viðfangsefnið á næstu tvennum tónleikum er klassísk tónlist, en með nokkuð ólíku móti.

Á tónleikunum í Hofi fimmtudaginn 24. júní klukkan 20.00 mun hinn nýi kammerhópur Bjargir flytja margs konar kammertónlist frá ýmsum tímum. Í þessum hópi eru þrjár stúlkur, sem allar hafa stundað nám í Tónlistarskólanum á Akureyri og eru í framhaldsnámi við Listaháskóla Íslands. Hér er hljóðfæraskipanin svolítið óvenjuleg, tvö selló og ein fiðla. Helga María Guðmundsdóttir og Rún Árnadóttir leika á selló og Sólrún Svava Kjartansdóttir á fiðlu.

Fimmtudaginn 1. júlí klukkan 20.00 verða tónleikar í Hofi sem nefnast Gamlir og nýir tímar. Þriðja sónata Beethovens fyrir selló og píanó er fulltrúi gamla tímans, en sónatan Fjórar borgir eftir tyrkneska tónlskáldið Fazil Say er úr nýja tímanum með margs konar áhrifum seinni tíma samfélags þar sem meðal annars popp, djass og þjóðlagatónlist blandast saman.

Listamennirnir eru tvær ungar konur, Þóra Kristín Gunnarsdóttir, Akureyringur, sem lauk framhaldsprófi í píanóleik við Tónlistarskólann á Akureyri og stúdentsprófi frá MA en hélt nokkru síðar til Sviss, þar sem hún stundaði framhaldsnám á píanóið. Þar býr hún og hefur hadlið tónleika víða um Sviss og á Íslandi. Sellóleikarinn er Eden Sekulowic, en þær Þóra kynntust þegar þær voru báðar við tónlistarnám í Sviss og hafa leikið talsvert saman og komið fram á tónleikum nú allrasíðustu árin.

Það má því segja að ungar konur setji klassískan svip á tónleikaröð Verðandi.

Miðasala er á www.mak.is