Fara í efni
Menning

Karl Ágúst sem „fíflið“ í Samkomuhúsinu

Leikarinn og höfundurinn góðkunni, Karl Ágúst Úlfsson mætir með kveðjusýningu sína, Fíflið , í Samkomuhúsið um helgina.  Verkið verður sýnt tvisvar, á föstudagskvöld og laugardagskvöld.

„Í sýningunni Fíflið kynnumst við hirðfíflum allra tíma og heimshluta og rýnum í samband fíflsins og valdsins,“ segir í kynningu á verkinu. „Eru það verstu harðstjórarnir sem ekki þola að skopast sé með þá? Er fíflinu bókstaflega ekkert heilagt? Getur fíflið haft raunveruleg áhrif á rás sögunnar og eru fíflið og kóngurinn ef til vill ein og sama persónan þegar allt kemur til alls?“

Mikil reynsla

„Karl Ágúst Úlfsson hefur brugðið sér í allra kvikinda líki í íslensku menningarlífi og meðal annars gegnt hlutverki fíflsins við hirð þeirra sem stjórna samfélagi okkar. Í þessu verki setur hann eitt og annað í nýtt og óvænt samhengi, en þar kemur 40 ára reynsla hans sem samfélagsrýnir, höfundur og sviðslistamaður í góðar þarfir.“

Karl segir sjálfur á Facebook í dag: „Ég hef leikið fjölda sýninga á sviði Samkomuhússins á Akureyri og alltaf kunnað einstaklega vel við mig þar. Í þessari viku stíg ég á þetta hlýja og fallega svið í síðasta sinn, þegar ég leik FÍFLIÐ 30. sept og 1. okt.

Já, eiginlega get ég ekki kvatt íslenskt leikhús án þess að anda einu sinni (eða tvisvar) enn að mér andrúmsloftinu í Samkomuhúsinu og kasta kveðju á norðlendinga um leið. Hlakka mikið til að sjá ykkur og þakka fyrir mig.“

Miðasala er hér á heimasíðu Menningarfélags Akureyrar