Fara í efni
Menning

Kammerkórinn og VOCES8 syngja í kvöld

Kammerkór Norðurlands heldur tónleika með heimsfrægum sönghóp, VOCES8, í Akureyarkirkju í kvöld, mánudagskvöld kl. 20.00. Tónleikarnir eru hluti af 20 ára afmælishátíð VOCES8, en hópurinn hélt tónleika fyrir sunnan um helgina og meðlimir Kammerkórsins voru þar í söngsmiðju með hópnum. Pálmi Óskarsson er formaður Kammerkórsins, var mjög spenntur fyrir samstarfinu þegar Akureyri.net heyrði í honum, eins og fram kom fyrir helgi.

„VOCES8 er breskur sönghópur sem er mjög virtur í tónlistarheiminum, hafa meðal annars verið tilnefnd til Grammy-verðlauna,“ segir Pálmi þá, og ástæða er til að minna aftur á tónleikana í kvöld. „Einn kórfélagi hjá okkur er mikill aðdáandi og var búinn að koma sér í samband við umboðsmann hópsins fyrir tveimur árum, og eitthvað laumað því að honum að það gæti verið gaman að koma til Íslands. Svo kom bara boð frá þeim að fyrra bragði, að halda með okkur tónleika á Akureyri, sem er mikill heiður.“

Kammerkór Norðurlands. Mynd: aðsend

Mikil tilhlökkun fyrir smiðjunni og tónleikunum

„Það verður finnskur organisti með okkur á tónleikunum, Pétur Sakari, en á tónleikunum munu þau syngja ein, við syngja ein og svo syngjum við öll saman,“ segir Pálmi. „Við erum rosalega ánægð að fá að taka þátt í þessu, í ljósi þess hvað þetta er virtur sönghópur og það er mikil tilhlökkun í hópnum. Ég veit ekki til þess að VOCES8 hafi áður haldið tónleika á Íslandi.“

Pálmi lofar mikilli söngveislu í Akureyrarkirkju í kvöld.

Hér er hægt að nálgast miða á tónleikana.

 

Sönghópurinn VOCES8 er duglegur að deila söng sínum á veraldarvefnum, en YouTube rás þeirra er mjög vinsæl.