Fara í efni
Menning

Kammerkórarnir tveir að norðan í Hallgrímskirkju

Guðmundur Óli Gunnarsson, til vinstri, stjórnandi Kammerkórs Norðurlands, og Eyþór Ingi Jónsson, organisti og stjórnandi Hymnodiu. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Norðlensku kammerkórarnir tveir, Hymnodia og Kammerkór Norðurlands, halda sameiginlega tónleika í Hallgrímskirkju á morgun, sunnudaginn 5. nóvember. Þar verður flutt Requiem eftir franska tónskáldið Maurice Duruflé. Tónleikarnir, sem eru hluti hliðardagskrár tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves, hefjast klukkan 17.00.

Hildurgunnur Einarsdóttir messósópran er einsöngvari með kórunum og Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir leikur á selló. Guðmundur Óli Gunnarsson, stjórnandi Kammerkórs Norðurlands, stjórnar kórunum en Eyþór Ingi Jónsson, stjórnandi Hymnodiu og organisti, leikur á orgelið.

Hildigunnur Einarsdóttir messósópran og Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir sellóleikari. 

Gaman er að nefna hve skemmtileg norðlensk tenging hefur myndast við þetta stórkostlega verk.

  • Mótettukórinn söng það á sínum tíma inn á plötu og Akureyringurinn Hörður Áskelsson stjórnaði og Michael Clarke söng einsöng.
  • Kór Breiðholtskirkju söng það og Ólafsfirðingurinn Örn Magnússon stjórnaði og Húsvíkingurinn Steingrímur Þórhallsson spilaði orgelhlutann. 
  • Að þessu sinni eru allir flytjendur norðlenskir á einhvern hátt, eins og þar stendur. Listræn stjórnun tónleikaraðarinnar er í höndum Björns Steinars Sólbergssonar, fyrrverandi organista Akureyrarkirkju og Sólbjörg dóttir hans er viðburðarstjóri.

Aðgangseyrir á tónleikana er 3.900 krónur. Miðar fást í Hallgrímskirkju og á https://tix.is/is/event/16105

Kammerkór Norðurlands og Hymnodia hafa tekið saman höndum í ólíkum verkefnum. Þessu tiltekna verkefni, Requiem eftir Duruflé, var hrundið af stað árið 2021, þar sem stjórnendur kóranna sýndu því áhuga að vinna saman að krefjandi verkefni. Tónleikar voru haldnir 7. nóvember 2021 í Akureyrarkirkju og hlutu flytjendur mikið lof fyrir. Einkar ánægjulegt er nú að fá að endurtaka leikinn fyrir tónleikagesti í Hallgrímskirkju, segir í tilkynningu um tónleikana.

  • Hymnodia hefur starfað frá árinu 2003 að frumkvæði Eyþórs Inga Jónssonar, organista og kórstjóra, sem enn er við stjórnvölinn.

„Kórinn leitast við að takast á við krefjandi og metnaðarfull verkefni en ekki síður að reyna sig við tilraunakennda tónlist og feta óvenjulegar leiðir, frumflytja ný tónverk og líka panta verk hjá íslenskum tónskáldum,“ segir í tilkynningu um tónleikana.

„Af stórum verkefnum má nefna barokkverkið Membra Jesu Nostri eftir Buxtehude sem flutt var í Hallgrímskirkju ásamt barokksveit með upprunahljóðfærum og Önnu Zander messósópran. Einnig setti Hymnodia upp óperuna Dido og Aeneas eftir Henry Purcell í leikstjórn Guðmundar Ólafssonar og dansstjórn Ingibjargar Björnsdóttur. Af framsæknum verkum má nefna gjörning myndlistarparsins Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar, Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands, og verkefnið Voiceland eftir þýsku sviðslistakonuna Mareike Dobewall og tónskáldið Gísla Jóhann Grétarsson. Hymnodia hefur gefið út þrjár plötur og haldið tónleika víða um Ísland en einnig í Sviss og Noregi.“

  • Kammerkór Norðurlands var stofnaður haustið 1998 og Guðmundur Óli Gunnarsson hefur stjórnað kórnum frá árinu 2000.

„Í kórnum er söngfólk víða af Norðurlandi og samanstendur hópurinn af menntuðum söngvurum og tónlistarfólki sem gerir honum kleift að æfa í lotum og vinna markvisst þrátt fyrir dreifða búsetu. Kórinn hefur í gegnum árin lagt sitt af mörkum til menningarstarfs á Norðurlandi eystra og víðar um landið með fjölbreyttu tónleikahaldi, þátttöku í stórum tónlistarverkefnum m.a. með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Hymnodia og Skagfirska Kammerkórnum og með útgáfu, en kórinn hefur gefið út þrjá hljómdiska; Kammerkór Norðurlands (2010), Ljúflingsmál (2017) og Á svörtum fjöðrum (2020). Kórinn hefur á þessum tíma flutt fjölbreytta tónlist; þjóðlög, madrígala, kirkjutónverk, kvikmyndatónlist og ekki síst frumsamin verk til handa kórnum. Það hefur verið meðvituð stefna og metnaðarmál kórsins og stjórnanda hans að hvetja íslensk tónskáld til dáða með því að kaupa af þeim verk og stuðla þannig að vexti og viðgangi íslenskrar kórtónlistar.“

Hymnoda og Kammerkór Norðurlands á tónleikum í Akureyrarkirkju.

  • Eyþór Ingi Jónsson nam orgelleik og kirkjutónlist, fyrst í Tónskóla Þjóðkirkjunnar hjá Herði Áskelssyni og fleirum (1995-1998) og síðar hjá prof. Hans-Ola Ericsson í Tónlistarháskólanum í Piteå í Svíþjóð (1999-2007).

„Eyþór kennir orgelspuna, orgelleik og orgelfræði við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og Listaháskóla Íslands. Eyþór er afar virkur í tónleikahaldi, bæði einn og í samstarfi við aðra tónlistarmenn,“ segir í tilkynningunni. Fyrsta sólóplata Eyþórs, Septim, kom út árið 2021 og hefur Eyþór leikið inn á og stjórnað kórum á fjölda annarra hljómplatna. Eyþór hefur bæði leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og stjórnað hljómsveitinni. Eyþór starfar sem organisti við Akureyrarkirkju og stjórnandi kammerkórsins Hymnodia.“ 

  • Hildigunnur Einarsdóttir lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og Signýjar Sæmundsdóttur og stundaði framhaldsnám í Þýskalandi og Hollandi hjá Janet Williams og Jóni Þorsteinssyni.

„Hildigunnur hefur einnig lokið B.A. prófi í skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands hvar hún sótti söngtíma hjá Hlín Pétursdóttur Behrens. Hildigunnur stjórnar Árkórnum í Reykjavík og Kvennakórnum Kötlu ásamt Lilju Dögg Gunnarsdóttur. Hildigunnur kennir einnig söng við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Söngskólann Domus Vox. Hildigunnur hefur verið áberandi í kirkjutónlistarsenunni og sungið einsöngshlutverkin m.a. Messías og Judas Maccabeus eftir Händel, Mattheusarpassíu, Jóhannesarpassíu og Jólaóratoríuna eftir Bach og Guðbrandsmessu eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Hildigunnur hefur einnig sungið einsöng m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Barokksveitinni Brák og Kammersveit Reykjavíkur og frumflutt fjölda verka m.a. eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson, Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur og Kolbein Bjarnason. Hildigunnur var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2014 fyrir túlkun sína á sönglögum Karls O. Runólfssonar með kammerhópnum Kúbus og hlaut nýlega Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir söng ársins í sígildri og samtímatónlist.“

Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir, sellóleikari, stundaði sellónám hjá Sigurgeiri Agnarssyni og Gunnari Kvaran við Listaháskóla Íslands og Morten Zeuthen við Konunglega Konservatoríið í Kaupmannahöfn.

„Vorið 2019 lauk Hrafnhildur meistaranámi við Jacobs School of Music, Indiana University undir handleiðslu Brandon Vamos, sellóleikara Pacifica strengjakvartettsins, þar sem hún var handhafi Premier Young Artist Award og Marcie Tichenor skólastyrkjanna. Hún hefur auk þess sótt einkatíma og meistaranámskeið hjá Johannes Moser, Alisu Weilerstein, Richard Aaron, Darrett Adkins, Eric Kim, Amir Eldan, Marcy Rosen, Alison Wells o.fl. Hrafnhildur hefur komið víða fram á tónlistarhátíðum innanlands og utan, leikið með hljómsveitum beggja vegna Atlantshafsins og leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Hún hefur gegnt stöðu leiðara sellódeildar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands frá 2019 og hefur einnig verið fyrsta selló í hljómsveitum á borð við Aurora Symphony Orchestra í Stokkhólmi og Aspen Opera Orchestra í Colorado, Bandaríkjunum, auk þess að hafa komið fram sem bæði leiðari og aðstoðarleiðari sellódeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir sellóleik sinn, s.s. tónlistarverðlaun Rótarý, viðurkenningu frá Minningarsjóði Jean-Pierre Jacquillat og minningarsjóði Jóns Stefánssonar, Thor Thors Fellowship og Leifur Eiríksson Fellowship. Hrafnhildur hefur einnig unnið til verðlauna sem meðlimur í Kuttner strengjakvartettinum, fyrrum heiðurskvartett Indiana University, og hefur með honum m.a. verið staðarkvartett vikulangt í Beethoven húsinu í Bonn. Í framhaldi af því bauðst kvartettinum að taka upp stutt, ókláruð kammerverk eftir Beethoven fyrir Naxos sem aldrei hafa verið tekin upp fyrr en nú. Þessar upptökur eru hluti af heiðursútgáfu Naxos á öllum verkum Beethovens sem gefin var út árið 2020 í tilefni af 250 ára ártíð tónskáldsins. Hrafnhildur býr nú í Kaupmannahöfn þar sem hún kemur reglulega fram með hljómsveitum á borð við Sinfóníuhljómsveit danska útvarpsins sem og Konunglegu dönsku óperuhljómsveitinni, auk annarra verkefna. Hún leikur á Garavaglia selló frá árinu 2011 og boga úr smiðju James Tubbs frá nítjándu öld.“

Guðmundur Óli Gunnarsson er stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands og hefur stjórnað Kammerkór Norðurlands frá árinu 2000.

„Hann var aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands 1992-2013 og stjórnaði kammersveitinni Caput í 18 ár. Hann var tónlistarstjóri Íslensku óperunnar þar sem hann starfaði um 5 ára skeið og hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kammersveit Reykjavíkur. Guðmundur Óli hefur stjórnað ýmsum kórum og stjórnaði m.a. Kórastefnu við Mývatn 2003 - 2009 auk þess að koma fram sem stjórnandi sameinaðra kóra á landsmótum karlakóra og kvennakóra. Þá var hann stjórnandi á Nordic-Baltic kórahátíðinni í Helsinki 2012 og á Nordklang kórahátíðinni í Helsingborg 2019.“

https://www.facebook.com/kammerkornord

https://www.facebook.com/hymnodia