Fara í efni
Menning

Kalli er handhafi Kærleikskúlunnar 2021

Sirra Sigrún Sigurðardóttir, höfundur Kærleikskúlunnar 2021, afhendir Karli Guðmundssyni kúluna í Listasafninu á Akureyri í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Akureyrski listamaðurinn Karl Guðmundsson, Kalli, er handhafi Kærleikskúlunnar 2021. Hún er árlega veitt framúrskarandi fyrirmynd fyrir störf í þágu fólks með fötlun. Kalli veitti kúlunni viðtöku í dag í Listasafninu á Akureyri, þar sem einkasýning hans var einmitt opnuð um síðustu helgi.

Stjórn Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra velur handhafann hverju sinni úr stórum hópi sem jafnan er tilnefndur. „Kalli er sannarlega verðug fyrirmynd. Hann lætur ekkert stöðva sig, hefur sigrast á hindrunum og er frábær listamaður,“ segir í áliti stjórnarinnar.

Þetta er 19. árið sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra gefur út Kærleikskúlu en markmið með sölu hennar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna. Allur ágóði af sölunni rennur óskiptur til sumarbúða Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í Reykjadal.

Karl Guðmundsson hefur haldið fjölda einkasýninga og samsýninga og um helgina var opnuð fyrsta einkasýning hans í Listasafninu á Akureyri, sem fyrr segir. Verkin á sýningunni vann Kalli með listakonunum Rósu Kristínu Júlíusdóttur, sem hann hefur starfað með í fjöldamörg ár, og Örnu Valsdóttur.  Árið 2015 var Kalli valinn Listamaður án landamæra. Við það tilefni sagði Rósa um Kalla: „Myndsköpun Kalla gefur honum rödd sem heyrist og gerir hann sýnilegan. Þessi rödd er þýðingarmikil og eflandi máttur í lífi hans.“

Sólargangur eins árs

Íslenskur listamaður er árlega fenginn til að hanna Kærleikskúluna. Í ár var það Sirra Sigrún Sigurðardóttir og hún afhenti Kalla kúluna við athöfnina í dag. Kúluna kallar hún Eitt ár og listaverkinu lýsir Sirra svona: 

Kúlan er umvafin teikningu sem lýsir sólargangi eftir árstíma á Íslandi, allt frá löngum björtum sumarnóttum að vetrarsólstöðum þegar birtu nýtur aðeins í örfáar klukkustundir á dag.

Teikningin sýnir ólík birtustig sólarhringsins og þá afgerandi árstíðabundnu sveiflur sem við upplifum hér við heimskautsbaug.

Litirnir fimm sem hverfast um kúluna tákna; dögun, birtingu, dagbjart, sólarlag og myrkur. Litirnir sem eru mest áberandi eru; gulur fyrir hábjartan dag og blár fyrir myrkur næturinnar, þar á milli raða sér rauðgulur, bleikur og fjólublár fyrir ljósaskiptin.

Verkið reynir að fanga eitthvað sem við þekkjum svo vel í okkar daglega amstri en talar einnig til stærra samhengis okkar, til síbreytilegrar stöðu okkar í himingeimnum þar sem við snúumst um ás á sporbaug um sólu.

  • Kærleikskúlan er seld í gjafavöruverslunum um allt land dagana 9. til 23. desember og í netverslun Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra http://www.kaerleikskulan.is  
  • Á Akureyri verður Kærleikskúlan til sölu í Húsgagnahöllinni, Casa og Blómavali.

Séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, blessaði Kærleikskúluna í dag.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, stjórnarkona í Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra ávarpar samkomuna í dag. Á myndinni eru líka, frá vinstri: Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarpestur í Akureyrarkirkju og Sirra Sigrún Sigurðardóttir, listakonan sem hannaði Kærleikskúluna í ár.