Fara í efni
Menning

Jón Gnarr: Magnað verk og mér mjög að skapi

Jón Gnarr í þekktasta hlutverki sínu til þessa - hlutverki borgarstjóra í Reykjavík sem hann fór með frá 2010 til 2014.

„Mér finnst rosalega gaman að koma aftur norður. Það er frábær stemning og góður andi í Samkomuhúsinu og svo skynja ég jákvætt viðhorf hjá bæjarbúum gagnvart leikhúsinu, sem er ekki sjálfgefið,“ segir Jón Gnarr sem tekur í vetur þátt í uppsetningu á verki Þorvaldar Þorsteinssonar And Björk, of course sem Leikfélag Akureyrar frumsýnir í Samkomuhúsinu í febrúar 2024.

Á síðasta leikári lék Jón Gnarr titilhlutverkið í Skugga Sveini við góðar undirtektir. Hann segir að hlutverk útilegumannsins sé eitt það skemmtilegasta sem hann hafi leikið á sviði. „Svo fann ég ekki heldur fyrir miklum óþægindum af því að búa á Akureyri svona lengi og lenti heldur aldrei í því, að nein af þessum heiðum væri ófær! Annars finnst mér líka bara svo gaman að pendla svona á milli,“ segir Jón.

Magnað leikverk

Honum líst vel á leikritið And Björk, of course. „Þetta er magnað leikverk og persónulega mér mjög að skapi þar sem það er svolítið svipað mínum eigin stíl sem leikskálds. Mér finnst þessi nálgun og stíll mjög fyndinn en líka mjög erfiður því það er verið að fjalla um alvarleg mál á kjánalegan hátt og það skapar einhver óþægindi sem mér finnst ofboðslega skemmtilegt. Ég sá ekki verkið á sínum tíma og þekkti Þorvald lítið en ég var mjög hrifinn af honum sem listamanni.“

Skrifað í skýin

And Björk, of course fjallar um persónur sem koma saman á sjálfshjálparnámskeiði undir stjórn leiðbeinanda en öll eru þau í leit að sjálfum sér og staðfestingu á eigin virði. „Ég leik Indriða, svakalega borderline gaur, sem ég hlakka til að takast á við. Þessi leikarahópur er mjög spennandi og ég hlakka líka til að vinna með Grétu leikstjóra. Ég hef þegar tryggt mér búsetu fyrir norðan á landsnámsjörð sem ég held áfram að gera upp í leiðinni svo ég mun taka með mér verkfæri og dót. Þetta er allt saman skrifað í skýin.“

Aðrir leikarar eru Sverrir Þór Sverrisson, Eygló Hilmarsdóttir, Arna Magnea Danks, Davíð Þór Katrínarson, María Pálsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir. Leikstjóri er Gréta Kristín Ómarsdóttir. Um leikmynd og búninga sér Brynja Björnsdóttir, ljósahönnun er í höndum Ólafs Ágústs Stefánssonar en tónlistin í höndum Axels Inga Árnasonar og Péturs Karls Heiðarsonar og Gunnar Sigurbjörnsson sér um hljóð.

  • Miðasala á And Björk, of course er í fullum gangi á mak.is og gildir forsölutilboð til 15. október skv. upplýsingum frá Menningarfélaginu.