Fara í efni
Menning

Fallegir tónleikar Kórs Akureyrarkirkju

Vera Hjördís Matsdóttir sópransöngkona, í rauða kólnum, söng afar fallega í Akureyrarkirkju í gærkvöldi. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Langþráðir Jólasöngvar Kórs Akureyrarkirkju urðu loks að veruleika á ný í gærkvöldi eftir þriggja ára hlé vegna Covid. Akureyrarkirkja var þétt setin og fólk naut augljóslega stundarinnar.

Kórinn söng mjög fallega undir stjórn Þorvaldar Arnar Davíðssonar, að auki söng eldri barnakór kirkjunnar undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur og Vera Hjördís Matsdóttir, ung  sópransöngkona, söng sig inn í hjörtu viðstaddra, m.a. með flutningi Ó, helga nótt. Þá léku á tónleikunum Sóley Björk Einarsdóttir, trompetleikari, Emil Þorri Emilsson, slagverksleikari og organistinn Eyþór Ingi Jónsson.

Á efnisskránni var m.a. úkraínskur jólasöngur sem flestir þekkja, en þó sennilega ekki hvaðan hann er upprunninn. Lesia Moskalenko fjallaði einmitt um það fallega lag í fróðlegum og skemmtilegum pistli á Akureyri.net nýlega. Smellið hér til að lesa pistil Lesiu.

Kór Akureyrarkirkju og eldri barnakór kirkjunnar syngja saman í gærkvöldi. Þorvaldur Örn Davíðsson stjórnar.

Eldri barnakór Akureyrarkirkju syngur undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur 

Slagverksleikarinn Emil Þorri Emilson, fyrir miðri mynd, og Eyþór Ingi Jónsson, organisti við flygilinn.

Kirkjugestir stigu á fætur og sungu í tvígang með kórunum, undir stjórnar Þorvalds Arnar; hér syngur hópurinn Nóttni var sú ágæt ein.