Fara í efni
Menning

Jólasöngvar Kórs Akureyrarkirkju

Ljósmynd: Eyþór Ingi Jónsson
Ljósmynd: Eyþór Ingi Jónsson

Kór Akureyrarkirkju býður loks upp á Jólasöngva á ný í kvöld, laugardagskvöld, eftir þriggja ára hlé. Tónleikarnir hefjast klukkan 20 í Akureyrarkirkju og aðgangur er ókeypis.

Þorvaldur Örn Davíðsson, stjórnandi kórsins, segir mikla eftirvæntingu í hópnum og fjölbreytni mikla í efnisvali. Flutt verður sígild aðventu- og jólatónlist í bland við léttari jólalög en hátíðleikinn mun ráða ríkjum á tónleikunum.

Auk Kórs Akureyrarkirkju syngur eldri barnakór kirkjunnar, svo og Vera Hjördís Matsdóttir, ung sópransöngkona sem vakið hefur mikla athygli. Einnig koma fram hljóðfæraleikararnir Sóley Björk Einarsdóttir, trompetleikari, Emil Þorri Emilsson, slagverksleikari og innanbúðar maðurinn Eyþór Ingi Jónsson organisti.