Fara í efni
Menning

Jólaljós og lopasokkar í Hofi á föstudagskvöld

Jólatónleikarnir Jólaljós og lopasokkar verða haldnir í Hofi á Akureyri annað kvöld, föstudagsköldið 2. desember.  „Um er að ræða stórtónleika þar sem stór hópur tónlistarfólks frá Akureyri kemur fram,“ segir í tilkynningu. „Þetta verða kósý og hátíðlegir jólatónleikar með öllum okkar uppáhalds jólalögum í bland við minna þekkt jólalög,“ segir Jónína Björt Gunnarsdóttir sem fer fyrir hópnum.

„Þetta er að stórum hluta skipað sama fólki og setti upp tónleikasýningu af Hárinu í Hofi í voru og hefur komið fram reglulega undir nafninu Drottningar á Græna hattinum að undanförnu,“ segir Jónína en auk hennar koma fram Óskar Pétursson, Ívar Helgason, Vilhjálmur B. Bragason, sönghópurinn Rok, fimm manna hljómsveit og dansarar. Hljómsvetina skipa Daníel Þorsteinsson á píanó, Guðjón Jónsson á píanó, Stefán Gunnarsson á bassa, Valgarður Óli Ómarsson á trommur, Daníel Andri Eggertsson á gítar og Valmar Valjaots á fiðlu.

„Við Óskar komum þarna inn sem gestir og syngum sóló, dúett með hvorum öðrum og auðvitað eitthvað með öllum hópnum. Þetta verður frábært kvöld sem enginn ætti að missa af,“ segir Ívar Helgason einn söngvara á tónleikunum. „Það er sérstök upplifun þegar fólk kemur sig saman til að gera svona tónleika fyrir fólkið í sínu nærsamfélagi. En um leið eru gæðin eins og best verður á kosið,“ segir Óskar Pétursson.

Jónína Björt segir að gestir í Hofi þann 2. desember megi eiga von á skemmtilegri kvöldstund sem muni koma þeim í gott jólaskap. „Við munum sjá til þess að öll fara glöð heim og andlega tilbúin í þessi jól,“ segir Jónína. Miðar eru seldir hér á mak.is.