Fara í efni
Menning

Jólaköttur Jóhönnu frumsýndur í Freyvangi

Freyvangsleikhúsið frumsýnir annað kvöld hugljúft jólaævintýri, Jólaköttinn, eftir Jóhönnu S. Ingólfsdóttur sem einnig leikstýrir verkinu.

„Höfundur byggir söguna á hinum alíslenska jólaketti eins og flestir þekkja hann, en blandar svo inní allskyns sögupersónum sem flestir kannast líka við,“ segir í tilkynningu frá Freyvangsleikhúsinu.

„Þegar jólakötturinn fær nóg af því að allir í kringum hann eru alltaf góðir, glaðir og að öllum finnist jólin frábær, ákveður hann að fara að heiman þar sem það er enginn lengur eins og hann.

Hann fer af stað fúll og önugur en á leið sinni upp á fjallið þá hittir hann ýmsar furðuverur sem eru fæstar eins og hann því eins og allir vita þá finnst flestum jólin frábær.“

Í tilkynninginnu segir ennfremur: „Það að vera frábrugðin öðrum og finnast maður ekki passa inn í getur verið flókið, en með vináttu, væntumþykju og kannski smá kurteisi er möguleiki á að finna sinn stað í tilverunni.“

Tónlistin í verkinu er létt og skemmtileg, segir Freyvangsleikhúsið, og er hún frumsamin fyrir verkið af Eiríki Bóassyni. Þetta er þriðja jólabarnaleikritið sem hann semur tónlistina í hjá Freyvangsleikhúsinu.

  • Jólakötturinn – Hallur Örn Guðjónsson
  • Hreindýrið – Birgitta Brynjarsdóttir
  • Stúfur – Jóhannes Már Pétursson
  • Tröllastelpa – Katrín Ósk Steingrímsdóttir

Jólakötturinn verður frumsýndur annað kvöld, föstudagskvöldið 21. nóvember kl. 20.00.