Fara í efni
Menning

Jarðhitarannsóknir: Segulmæla með dróna

Unnið er að segulmælingum á jarðhitasvæðinu við Botn í Eyjafjarðarsveit. Myndin er af vef Norðurorku, no.is.

Við rannsóknarvinnu á vegum Norðurorku á jarðhitasvæðinu á móts við Botn og Stokkahlaðir, skammt framan við þéttbýlið við Hrafnagil, hefur verið notast við dróna sem Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) keypti í haust og er nú notaður í fyrsta skipti í þessum tilgangi. Frá þessu er greint á vef Norðurorku.

Segulmælingarnar núna í haust koma í framhaldi af borun sjö rannsóknarhola í setlögin á bökkunum austan Eyjafjarðarár í fyrra, til móts við Botn og Stokkahlaðir, og svo fjögurra sem boraðar voru utan setfyllunnar, vestan ár, við Botnsreit og Stokkahlaðir í febrúar og mars á þessu ári.

Kortleggja jarðfræðilegar misfellur

„Í ljósi hitamælinga úr þessum holum þótti skynsamlegt að næsta skref í jarðhitaleit við Botn fælist í segulmælingum, þ.e.a.s. mælingum á segulsviði jarðar og breytingum á því. Með slíkum mælingum er hægt að kortleggja jarðfræðilegar misfellur eins og misgengi og bergganga sem leynast hulin undir jarðvegi eða lausum yfirborðslögum en slíkum fyrirbærum fylgja oft jarðhitasprungur,“ segir í frétt Norðurorku.

Þetta er mjög tímasparandi aðgerð miðað við þær aðferðir sem notaðar hafa verið hingað til, þar sem gengið var með mæli eftir fyrirfram útlögðum mælilínum og segulneminn hafður á stöng í ákveðinni hæð yfir jörðu. 

Meðal rannsóknarverkefna sem eru í gangi hjá Norðurorku er að kanna möguleika svæðum sem hafa jafnvel verið rannsökuð og nýtt áður. Eitt þessara svæða er að Botni rétt sunnan Hrafnagils. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Norðurorka nýtir tvær vinnsluhokur á jarðhitasvæðinu við Botn, 1.830 og 1.050 metra djúpar, en fyrst var borað þar í kringum 1980. Lengi hefur verið talið að jarðhitakerfið á þessu svæði geti staðið undir aukinni orkuvinnslu.

„Borun nýrrar og vel heppnaðrar vinnsluholu á svæðinu myndi jafnframt hafa þann kost að þeir innviðir hitaveitunnar, sem þegar eru til staðar á svæðinu, yrðu nýttir enn betur en nú er. Með aukinni orkuvinnslu á Botni mætti þannig mæta vaxandi orkuþörf í Eyjafirði um hríð á hagkvæman og skynsamlegan hátt,“ segir í umfjölluninni á vef Norðurorku og hefur fyrirtækið því staðið fyrir rannsóknum á svæðinu undanfarin misseri.

Kort úr gömlum fyrirlestri ÍSOR.

Auðveldara með betri tækni

Miklar rannsóknir voru gerðar á jarðhitasvæðinu að Botni í kringum 1980 og gáfu þær til kynna að líklega væri hægt að fá meira vatn þar, eins og meðal annars var fjallað um í greinaflokki Akureyri.net haustið 2023 - sjá hér. Á sínum tíma var talið að boranir yrðu dýrar vegna setlagsins í botni fjarðarins. Vegna kostnaðar við að fóðra holur til að geta borað niður úr setlaginu var á þeim tíma í staðinn leitað út á Þelamörk þar sem vitað var að til væri heitt vatn. Svæðið að Botni var hins vegar tekið aftur á dagskrá fyrir örfáum árum enda borun þar orðin auðveldari nú en áður með betri tækni. Þar sem innviðir eru nú þegar til staðar þykir þess virði að rannsaka þetta svæði betur enda leitað allra leiða til að mæta vaxandi orkuþörf í Eyjafirði og því nær sem vatnið er notendum því ódýrara er að ná í það.