Fara í efni
Menning

Íslenska Óperan og MAk sýna La Traviata í Hofi og Hörpu

Úr uppsetningu Íslensku óperunnar á La Traviata í Hörpu 2019.

Íslenska óperan og Menningarfélag Akureyrar hafa tekið höndum saman og munu sýna óperuna La Traviata eftir Guiseppe Verdi í Hofi á Akureyri og Hörpu í Reykjavík í nóvember á þessu ári. Svo fjölmenn ópera með stórri hljómsveit í gryfju hefur ekki áður verið sýnd í Hofi og þetta mun líka í fyrsta skipti sem Sinfóníuhljómsveit Norðurlands tekur þátt í uppfærslu Íslensku óperunnar.

  • ATHUGIÐ - ranglega var sagt í upphaflegri útgáfu fréttarinnar að ópera hefði ekki áður verið sýnd í Hofi. Kammerkórinn Hymnodia og Barokksveit Hólastiftis fluttu óperuna Dido og Aeneas í Hofi í apríl 2012 undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar og í leikstjórn Guðmundar Ólafssonar. Það sem vantaði var að ekki hefur verið flutt jafn fjölmenn ópera og nú og ekki með stórri hljómsveit í gryfju. 

„Þykir með fallegustu óperum“

La Traviata var sýnd í Hörpu árið 2019. Sýningin hlaut bæði einstakar viðtökur áhorfenda og frábæra dóma og hefur hefur verið leigð út til nokkurra erlendra óperuhúsa.

„Það er ekki síst vegna þess hvað óperan fékk frábærar viðtökur þegar hún var sýnd fyrir fullu húsi sex sinnum í Hörpu 2019 að við tökum hana til endursýningar enda þykir hún með allra fallegustu óperum sem hafa verið samdar og umfjöllunarefnið tímalaust og hrífandi,“ segir Steinunn Ragnarsdóttir óperustjóri við Akureyri.net.

Það kemur í hlut Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands að annast hljóðfæraleik í sýningunni að þessu sinni. Helstu verkefni hljómsveitarinnar síðustu misseri hafa verið að taka upp tónlist fyrir erlendar kvikmyndir og sjónvarpsþætti í Hofi, í nafni kvikmyndatónlistarverkefnisins SinfoniaNord.

Fimm stjörnu sýning á heimavelli!

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar er afar spenntur fyrir verkefninu: „Ávinningurinn af þessu sögulega samstarfi er meðal annars sá að íbúar Akureyrar og nágrannasveita munu geta notið óperusýningar á heimavelli, sýningar sem hlotið hefur 5 stjörnu dóma og skartar mörgum af okkar bestu söngvurum,“ segir hann. „Einnig er það fagnaðarefni að samstarfið mun veita atvinnutónlistarmönnum á öllu landinu tækifæri til að taka þátt í sýningu í svo háum gæðaflokki, meðal annars í höfuðstað landsbyggðarinnar á Akureyri,“ segir Þorvaldur Bjarni.

„Það verða mjög merkileg tímamót í sögu Hofs að mínu mati, þegar sýnd verður ópera í fulltri stærð með leikmynd og okkar besta fólki; frábærum söngvurum, 50 manna hljómsveit í gryfju, 60 kórsöngvurum og dönsurum. Og tvö menningarfélög að vinna saman þvert á landið, sem mér fyrst mjög ánægjulegt,“ segir Þorvaldur við Akureyri.net.

Óhætt er að taka undir orð Þorvaldar Bjarna. Starfsemi SN laðaði að sér Hátíðarballettin í Pétursborg í Rússlandi 2016 og síðan hafa verið settar upp þrjár ballettsýningar; Hnotubrjóturinn, Þyrnirós og Svanavatnið fyrir fullu húsi, stundum tvisvar.

Herdís fékk Grímuverðlaunin

Aðalhlutverkið í La Traviata verður sem fyrr sungið af Herdísi Önnu Jónasdóttur sem fékk frábæra dóma og Grímuverðlaunin sem söngvari ársins fyrir túlkun sína á hlutverki Víólettu 2019. Hrólfur Sæmundsson er aftur í einu aðahlutverkanna en Alfredo syngur að þessu sinni tenórinn Rocco Rupolo „sem hefur sungið víða um heim við frábærar undirtektir,“ segir Steinunn við Akureyri.net.

Hljómsveitarstjóri í La Traviata verður Bjarni Frímann Bjarnason og leikstjóri Kanadamaðurinn Oriol Tomas.

„Hlökkum mikið til“

„Við hlökkum mikið til samstarfsins við Menningarfélag Akureyrar og að fá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands til liðs við okkur í flutningi á þessari frábæru óperu sem margir telja þá fallegustu sem samin hefur verið. Einnig er það sérstakt ánægjuefni fyrir okkur að fá að sýna óperuna í Hofi sem er annað tveggja fullkomnustu tónlistarhúsa landsins ásamt Hörpu og rækta þannig hlutverk Íslensku óperunnar sem Ópera allra Íslendinga,“ segir Steinunn.

Frábærar undirtektir í Kanada

Uppfærsla Íslensku óperunnar hefur verið leigð til útlanda, eins og áður kom fram. „Fjögur óperuhús erlendis hafa leigt af okkur sýninguna og hún hefur þegar verið sýnd í Opera Quebec í Kanada við frábærar undirtektir. Óperuhúsin í Frakklandi sem hafa gert við okkur leigusamning þurftu að fresta sýningunum hjá sér en munu sýna óperuna við fyrsta tækifæri,“ segir Steinunn óperustjóri við Akureyri.net.

Uppfærslan sem var sköpuð hjá ÍÓ var sem sagt leigð; það er sama sviðsetning, leikmynd og búningar ásamt lýsingu og videói, en flytjendur aðrir en hér heima.

  • Mynd að ofan: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar.

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands - sem SinfoniaNord - tekur upp tónlist í dýralífsþátt fyrir BBC árið 2019. Hún hefur aðallega fengist við slík verkefni á Covid tímanum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Úr uppsetningu Íslensku óperunnar á La Traviata í Hörpu 2019.