Fara í efni
Menning

Ingibjörg Turchi og hljómsveit í Hofi

Ingibjörg Turchi og hljómsveit í Hofi

Laugardaginn 3. júlí heldur Ingibjörg Elsa Tuchi tónleika ásamt hljómsveit sinni í Hofi. Tónleikarnir eru liður í Listasumri á Akureyri og hefjast klukkan 18.00. Miðar fást á mak.is

Ingibjörg er tónskáld og ein skærasta stjarna meðal bassaleikara á Íslandi þessi misserin. Hún hefur leikið í hljómsveitum með mörgum okkar helstu tónlistarmönnum eins og Emiliönu Torrini, Teiti Magnússyni og Bubba Morthens og hún tók við bassanum í Stuðmönnum þegar Tómas Tómasson féll frá. En hún hefur líka samið verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands auk þess sem hún hefur samið fyrir sjálfa sig og hljómsveit sína.

Ingibjörg gaf út stuttskífu, Wood/Work árið 2017, en þar er bassinn í aðalhlutverki, sem er kannski ekki afar algengt. Í júlí 2020 gaf Ingibjörg svo út plötu í fullri lengd, Meliae, og hélt áfram að víkka út hljóðheim sinn með hjálp hljómsveitar sinnar. „Á plötunni ægir saman djassi, tilraunamennsku og naumhyggju í ómþýðri blöndu. Endurtekningar eru í fyrirrúmi. Hljóðfæri á borð við saxófón, gítar og bassa eru afbyggð með hjálp raftækja og síðan byggð upp aftur. Þannig skapa Ingibjörg og félagar einstakan og dáleiðandi hljóðheim þar sem hið kunnuglega verður framandi á ný,“ eins og segir í kynningu á tónleikunum.

Platan Meliae hlaut Kraumsverðlaunin 2020, og var auk þess valin plata ársins af Morgunblaðinu og straum.is. Á Íslensku tónlistarverðlaununum 2021 hlaut Ingibjörg sex tilnefningar og tvenn verðlaun, annars vegar fyrir plötu ársins í flokki djass-og blústónlistar og fyrir upptökustjórn í opnum flokki.

Á tónleikunum í Hofi munu Ingibjörg og hljómsveit leika verk af plötunni Meliae, ásamt nýju efni af plötu sem er í bígerð, í bland við spuna.

Ingibjörg Elsa Turchi leikur á rafbassa, Tumi Árnason á saxófón, Magnús Trygvason Eliassen á trommur og Hróðmar Sigurðsson á gítar.