Fara í efni
Menning

Í myrkri eru allir kettir gráir

Í myrkri eru allir kettir gráir

Tveir einleikir á vegum atvinnuleikhópsins Umskiptinga verða frumsýndir í Hlöðinni, Litla Garði næsta laugardag 18. september. 

Tvíleikinn - þessa tvo einleiki sama kvöldið - kallar leikhópurinn Í myrkri eru allir kettir gráir. Annars vegar er það Heimþrá sem samið er og leikið af Sesselíu Ólafs, hins vegar Líf, sem samið er og leikið af Margréti Sverrisdóttur.

Í tilkynningu frá leikhópnum segir meðal annars:

„Í myrkri eru allir kettir gráir er svokallaður tvíleikur, eða tveir einleikir sýndir sama kvöldið. Verkin eru að mörgu leyti ólík en fjalla þó bæði í grunninn um mennskuna og hvernig fólk glímir á ólíkan hátt við áföll.“

Fyrra verkið heitir Heimþrá og fjallar um Öldu, sem vinnur að lokaritgerð sinni til meistaragráðu í HA og tekur viðtöl við flóttamenn. Einn þeirra lánar henni stílabók með frásögnum samlanda sinna úr flóttamannabúðunum og smám saman vekja þær hjá Öldu viljann til að vinna sig út úr eigin missi.

Seinna verkið heitir Líf og fjallar um Sissu, sem er tónlistarkona af lífi og sál. Hún hefur óbilandi trú á eigin ágæti en finnst hún ekki alltaf njóta sannmælis í listaheiminum, þar sem klíkuskapurinn ræður ríkjum. Eftir eins sumars frægð á unglingsárunum og vinsælan einsmellung dreymir hana um meira. Svo miklu meira. En lífið þvælist fyrir henni og áframhaldandi frægð lætur bíða lengi eftir sér. En Sissa gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana og loksins, einn góðan veðurdag, springur allt út.

Hugmyndin að tvíleiknum fæddist á fundi hjá leikhópnum Umskiptingum árið 2018. Þá voru bæði Margrét og Sesselía komnar með hugmyndir að einleikjum sem þær langaði að skrifa. Þær ræddu innihald beggja einleikjanna og ákváðu að sýna þá saman og fá Jennýju Láru til þess að leikstýra þeim. Margrét hellti sér svo í að skrifa einleikinn Líf og á meðan samdi Sesselía Heimþrá. Áformað var að sýna tvíleikinn haustið 2020, en önnur bylgja Covid kom í veg fyrir það. Báðir einleikirnir nutu þó góðs af biðinni og höfundar þeirra fóru í gegnum nokkrar útgáfur handritanna sem nú eru fullkomnuð.

  • Atvinnuleikhópinn Umskiptinga skipa þau Birna Pétursdóttir, Jenný Lára Arnórsdóttir, Margrét Sverrisdóttir, Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur B. Bragason. Árið 2017, þegar leikhópurinn var stofnaður markaði það tímamót. Það var í fyrsta skipti í 4 ár sem atvinnuleikhópur var starfandi á Akureyri. Það sama ár sýndu þau sitt fyrsta verk, „Framhjá rauða húsinu og niður stigann“. Það vakti mikla eftirtekt og fékk góða dóma og var sýnt bæði í Hlöðunni, rétt utan Akureyrar, og í Tjarnarbíói og árið eftir var leikhópurinn tilnefndur til Grímunnar sem sproti ársins.
  • Árið 2019 settum þau svo upp frumsamda fjölskylduleikritið „Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist“, með frumsamdri tónlist og aðkomu fjölmargra listamanna víðsvegar að af landinu. Hún fékk frábærar viðtökur og fjórar stjörnur í Morgunblaðinu og árið eftir var sýningin tilnefnd til Grímunnar sem barnasýning ársins.

Leikstjóri og framleiðandi beggja einleikja er Jenný Lára Arnórsdóttir, en hún útskrifaðist sem leikari og leikstjóri frá KADA í London árið 2012. Hún hefur einbeitt sér meira að leikstjórn en að leika frá útskrift en meðal hlutverka sem hún hefur farið með eru Sophie í Blik í uppsetningu Leikhópsins Artik í Gamla Bíói, Þórey í Hrútum eftir Grím Hákonarson, Söndru í Djúpum sporum í Tjarnarbíói og kvenhlutverkið í Elsku - ástarsögur Norðlendinga sem var gestasýning hjá LA veturinn 2016-2017.

Meðal leikstjórnarverkefna og handritsskrifa eru heimildarverkið Skjaldmeyjar hafsins með hjá leikhópnum Artik, gamanóperan Piparjúnkan og þjófurinn með Óperuhópnum, Einki orð með InTime Theatre og Tjóðpalli Føroya og Heima er þar sem ég halla mér - upplifunarferð um Melrakkasléttu.

Hún er meðlimur í leikhópnum Umskiptingar en hún sá um framleiðslu, markaðssetningu og verkstjórn á fyrsta verki þeirra Framhjá rauða húsinu og niður stigann. Jenný skrifaði og tilheyrði höfundateymi leikritsins Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist ásamt því að leika í fjölmörg hlutverk í verkinu en það var sýnt hjá Leikfélagi Akureyrar haustið 2019, en það verk var tilnefnt til Grímuverðlaunanna árið 2020 sem Barnasýning ársins.

Verkið Heimþrá er samið og leikið af Sesselíu Ólafs, en hún lærði leiklist og leikstjórn í leiklistarskólanum KADA í London. Hún útskrifaðist árið 2012 og hefur frá útskrift leikið bæði hérlendis og erlendis, í kvikmyndum og á sviði. Þar ber helst að nefna Melody í kvikmyndinni The Circle, Ylfu í þáttaröðinni Föngum, Sessý í Sjeikspír eins og hann leggur sig og Dimmbjörgu og Móra í Galdragáttinni.

Skrif hafa alltaf heillað hana og hún hefur samið handrit fyrir og leikstýrt tveimur stuttmyndum sem báðar hafa unnið til verðlauna, á Íslandi og erlendis.

Sesselía er einn af stofnendum bæði gríndúettsins Vandræðaskálda og leikhópsins Umskiptinga, en undir þeirra formerkjum hefur hún verið í höfundateymi revíu og tveggja leikrita, nýlega Galdragáttinni og þjóðsögunni sem gleymdist, en hún samdi líka helming söngtexta og tónlistar verksins.

Verkið Líf er samið og leikið af Margréti Sverrisdóttur, en hún útskrifaðist úr BA námi í leiklist frá Arts Ed London 2003. Frá útskrift hefur hún skrifað, leikið og leikstýrt bæði í sjónvarpi og leikhúsi. Margrét er Umskiptingur og lék m.a í barnaleiksýningunni Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist sem fékk tilnefningu til Grímunnar sama ár. Verk sem hún hefur leikið í eru m.a. Gallsteinar afa Gissa, Halla, Þöggun og Bólu-Hjálmar sem fékk Grímuverðlaunin 2009. Hún var umsjónarkona Stundarinnar okkar hjá Rúv í tvö ár og skrifaði og lék í barnaþáttunum Himinlifandi í samstarfi við Biskupsstofu og N4.

Sindri Swan sér um aðstoðarleikstjórn, aðstoðarframleiðslu og kvikmyndatöku, en hann útskrifaðist sem leikari og leikstjóri frá KADA í London árið 2014. Hann hefur komið fram bæði á kvikmyndasettum og leiksviðum í Bretlandi en hefur í seinni tíð beitt athygli sinni að leikstjórn og myndatöku.

Hann hefur meðal annars komið fram sem Dr. Colthurst í sjónvarpskvikmynd um Díönu Prinsessu, lesið inn á sýningu hjá National Theatre í London og meðal annars staðið inn fyrir Matthew Goode á ‘The Crown’. Í gegnum árin hefur Sindri leikstýrt ýmsum stuttmyndum sem og tekið upp myndbandsefni sem stjörnur á við Gerald Butler og Zendaya hafa verið í. Sindri er aðstoðarmaður leikstjóra fyrir þessa sýningu og mun því snúa að ýmsum verkefnum á bak við tjöldin.

Leikstjóri og framleiðandi: Jenný Lára Arnórsdóttir

Aðstoðarleikstjóri, aðstoðarframleiðsla og kvikmyndataka: Sindri Swan

Tæknistjóri: Eyþór Alexander Hallsson

 

Höfundur og leikari einleiksins Heimþrá: Sesselía Ólafs

Flóttafólk í myndböndum:

Farouq Alkhatib,

Reem Khattab Al-Mohammad,

Wissam Naser,

Fayrouz Nouh,

Jana Alkhatib

Syngjandi krakkar:

Emilía Eir Valgeirsdóttir

Emma Marín Önnudóttir

Hermann Þór Hovgaard

Hrefna Björk Víðisdóttir

Jóhann Þórir Valgeirsson

Strætókynnir: Jenný Lára Arnórsdóttir

 

Höfundur og leikari einleiksins Líf: Margrét Sverrisdóttir

Tónskáld: Eggert Hilmarsson

Höfundur söngtexta: Kristrún Eyjólfsdóttir

 

Frumsýning verður sem fyrr segir 18. september næstkomandi klukkan 20:.0 í Hlöðunni, Litla-Garði. Miðasala fer fram á tix.is - smellið hér til að kaupa miða.

Næstu sýningar:

25. september

26. september

30. september

1. október

Í hverri viku rennur hluti andvirðis seldra miða til góðgerðarmála.

Fyrstu vikuna renna 15% af miðasölu til Rauða krossins.

Margrét Sverrirsdóttir fer með eina hlutverkið í Lífi.

Sesselja Ólafs fer með hlutverkið í einleiknum Heimþrá.