Fara í efni
Menning

Í Hofi og heim heldur áfram annað kvöld

Það var myndarlegt átak hjá Menningarfélagi Akureyrar og Hofi að setja upp og streyma röð fernra tónleika í kófinu og skammdeginu. Það skemmtilegasta við það er hugmyndin að tefla fram reynsluboltum í tónlist og ungu og skapandi tónlistarfólki á þröskuldi ferilsins. Í desember síðastliðnum var fyrstu tónleikunum streymt frá Hofi þar sem fjórir áheyrendur voru í sal ásamt listamönnunum, Magna Ásgeirssyni og Stefáni Elí. Viku síðar lék Alexander Edelstein á píanó og Þórhildur Örvarsdótttir söng, þá var leyfilegt að hafa 10 áheyrendur í salnum, aðrir sátu heima. Þetta tókst afar vel til.

Núna, fimmtudaginn 14. janúar eru þriðju streymistónleikarnir og hefjast klukkan 20. Þá verða nokkru fleiri áheyrendur í sal, en tengill á áhorf heima í stofu verður á vef mak.is. Þarna leggja saman krafta sína söngvarinn og tónleikahaldarinn Friðrik Ómar Hjörleifsson og hin unga og frábæra 18 ára söngkona, Eik Haraldsdóttir. Með þeim verður gítarleikarinn Hallgrímur Jónas Ómarsson.

Fimmtudaginn 21. janúar verður síðasta streymið að sinni, en þá stíga á svið Andrea Gylfadóttir, sem varla er þörf á að kynna nánar, og með henni Einar Óli, einn af söngvurum, hljóðfæraleikurum og lagahöfundum sem renna í stríðum straumum frá Tónlistarskólanum á Akureyri þessi misserin.

Vonandi er að smátt og smátt verði samkomutakmörkunum aflétt og hægt að hleypa fólki í meira mæli á tónleika og aðra viðburði. Hins er að geta að streymi er möguleiki sem hlýtur að verða að einhverju leyti haldið áfram að nota á menningarviðburðum til að gefa fleirum tækifæri til að njóta en þeim einum sem komast á staðinn á tilteknum stundum.

Sverrir Páll