Fara í efni
Menning

Í Hofi og heim: Andrea og Einar Óli í kvöld

Tónleikaröðin Í Hofi & heim heldur áfram í kvöld þau leiða saman hesta sína söngkonan Andrea Gylfadóttir og tónlistarmaðurinn Einar Óli eða iLo.

Tónleikarnir fara fram á sviði Hamraborgar fyrir framan gesti í sal. Fjöldi gesta takmarkast við gildandi sóttvarnarreglur hverju sinni en tónleikunum er einnig streymt á mak.is svo áhorfendur geta haft það huggulegt og notið þeirra í sófanum heima.

Á þessari tónleikaröð er kynslóðunum teflt saman. Ungt listafólk frá Akureyri kemur fram með sér reyndara listafólki svo úr verður nýr og forvitnilegur vinkill um leið og kunnuglegheitin eru til staðar. Listafólkið flytur bæði þekkt lög og sín eigin svo allir fái að njóta sín. Allir tónleikarnir hefjast kl. 20.

Söngkonan Andrea Gylfadóttir hefur gefið út fjölda hljómplatna með hinum ýmsu hljómsveitum og listamönnum. Síðustu misserin hefur hún stundað kennslu við Tónlistarskólann á Akureyri. Einar Óli er laga- og textahöfundur frá Húsavík sem kemur fram undir listamannsnafninu iLo. Hann stundar nám við Tónlistarskólann á Akureyri og vinnur að fyrstu plötu sinni, Mind Like Maze, sem er væntanleg á árinu. Á tónleikunum flytja Einar og Andrea eigin verk í bland við tónlist eftir aðra.