Fara í efni
Menning

Hundur í óskilum glæðir Njálu lífi á hundavaði

Eiríkur Stephensen, til vinstri, og Hjörleifur Hjartarson, höfundur verksins, fara yfir Njálu á hundavaði í Samkomuhúsinu. Ljósmynd: Leikfélag Akureyrar

Sýningar á Njálu á hundavaði hefjast í Samkomuhúsinu á Akureyri í kvöld, föstudagskvöld. Þar ræðst dúettinn óviðjafnanlegi, Hundur í óskilum, á einn af hornsteinum íslenskrar menningar, ef svo má segja – sjálfa Njálu. Sýningum lýkur í október.

Dúettinn hefur slegið gegn síðustu ár með sýningum í sama anda. Hjörleifur Hjartarson, höfundur verksins, og Eiríkur Stephensen hlaupa meira en hæð sína í öllum herklæðum í gegnum skrautlegt persónugallerí Njálu; við sögu koma taðskegglingar, hornkerlingar, kinnhestar, kartneglur og þjófsaugu, svo fátt eitt sé nefnt, að því er segir í tilkynningu. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir.

Sýningin var frumsýnd haustið 2021 í Borgarleikhúsinu. Hjörleifur tók fram í bráðskemmtilegu viðtali við Akureyri.net á dögunum að það sé í fyrsta sinn sem þeir félagar frumsýni fyrir sunnan. „Samkomuhúsið á Akureyri er okkar heimavöllur. Borgarleikhúsið bauð okkur að framleiða sýninguna og maður slær ekki hendinni á móti því en okkur fannst ekki annað koma til greina en að fara með hana norður. Sinna okkar fólki, Norðurland á það inni hjá okkur“ sagði hann. 

Hjörleifur Hjartarson er höfundur verksins og fer með fjölda hlutverka. Ljósmynd: Leikfélag Akureyrar

Margslungnir karakterar

Tónlist, búningar, leikmunir og að sjálfsögðu húmor, einkenna sýninguna. Hjörleifur segist í viðtalinu hafa gaman af því að spegla nútímann og mannlegu hliðina í fornum hetjum Njáls sögu. „Við vorum búnir að fjalla um kvennasöguna í annari sýningu, og frumhugmyndin með því að taka fyrir Njálu var kannski að skoða karlmennskuna. Eitraða karlmennsku og áhættusækni. Vissulega eru þó líka sterkar kvenpersónur í sögunni.“ Hjörleifur leikur meðal annars Hallgerði langbrók í sýningunni og þar er á ferðinni alvöru karakter. „Hallgerður er náttúrlega áhugaverð að mörgu leyti. Hún á erfiða æsku og hlýtur ekki þá virðingu sem henni þykir sæma, þar sem hún er af góðum ættum. Faðir hennar afskrifar hana svolítið og kemur henni frá sér. Hún er afskaplega bitur.“

Eiríkur Stephensen í einu margra hlutverka í Njálu. Ljósmynd: Leikfélag Akureyrar

Hér má sjá bráðskemmtilegt viðtal Rakelar Hinriksdóttur við Hjörleif Hjartarson sem birtist á Akureyri.net á dögunum:

Ekki nóg að vera fallegur og hlaupa hæð sína í öllum herklæðum

Miðasala er á mak.is