Fara í efni
Menning

Hríseysk ungmenni í Hollandsferð

Hríseysk ungmenni í Hollandsferð. Myndin er af vef Hríseyjarskóla.

Undanfarin þrjú ár hafa nemendur í 6.-10. bekk Hríseyjarskóla tekið þátt í Erasmus+ verkefninu Islands Schools ásamt Háskólanum á Akureyri og menntastofnunum í Hollandi, Grikklandi, Skotlandi og á Spáni. Frá þessu er sagt á vef skólans, hriseyjarskoli.is.

Með verkefninu eru litlir eyjaskólar um alla Evrópu tengdir saman og hugmyndin að finna í sameiningu leiðir til nýsköpunar og leita lausna á vandamálum eyjasamfélaga um leið og sköpuð eru spennandi námstækifæri. 

Hápunktur verkefnisins hjá nemendum í Hríseyjarskóla var heimskókn til Hollands dagana 8.-10. maí, en krakkarnir höfðu safnað upp í ferðina í allan vetur. Á vef skólans segir meðal annars: 

Hríseyjarskóli hefur unnið náið með grunnskólanum De Jutter sem er á hollensku eyjunni Vlieland, á síðasta skólaári voru unnin verkefni um plastefni í hafi og komu hollensku nemendurnir ásamt kennurum sínum í heimsókn til Hríseyjar í maí 2022. Núna í mars hófst 8 vikna samvinna milli skólanna og var sjálfbær ferðaþjónusta tekin fyrir og hafa nemendur fræðst um sjálfbærni og unnið fjölbreytt verkefni með hollenska skólanum. Hápunktur verkefnisins var svo þegar Hríseyjarskóli heimsótti hollenska skólann 8.-10. maí sem var jafnframt lokaáfangi verkefnisins hvað nemendur varðar. Í framhaldinu munu háskólarnir fimm funda og taka saman helstu niðurstöður og útbúa heimasíðu þar sem aðrir fámennir eyjaskólar allstaðar í heiminum geta parað sig saman og unnið verkefnin sem við tilraunaskólarnir 5 erum búin að prófa.

Hríseyingar hafa verið ötulir við að flytja fréttir og miðla upplýsingum um verkefnið, á ýmsum vettvangi. Hér eru tenglar á umfjöllun, myndbönd og fleira.

Á vef Hríseyjarskóla er svo til viðbótar samantekt sem nenendur skrifuðu sjálfir eftir Hollandsferðina og birtum við hana hér í fullri lengd:

Við lögðum af stað í þetta skemmtilega ferðalag sunnudaginn 7. maí. Við tókum ferjuna klukkan eitt og þá hófst ferðin suður. Við gistum á hóteli í Keflavík, vöknuðum síðan klukkan hálf fjögur til að fara að fá okkur að borða því við áttum flug u.þ.b klukkan 8 um morguninn. Þegar við vorum búin að fljúga í þrjá klukkutíma og komum til Amsterdam biðu okkar tveir minibusar. Við keyrðum á McDonald’s og borðuðum þar. Síðan keyrðum við í bæ sem heitir Harlingen og fórum aðeins að versla. Við fórum síðan þaðan með ferjunni til Vlieland sem tók 95 mínútur. Nemendur og kennarar De Jutter tóku á móti á okkur á bryggjunni og fylgdu okkur á tjaldsvæðið, við spjölluðum saman og komum okkur fyrir í húsunum sem við gistum í.

Þriðjudagurinn var aldeilis eftirminnilegur þar sem hollensku konungshjónin heimsóttu Vlieland þennan dag og við hittum þau í skólanum. Um morguninn mættum við í skólann og fengum þar morgunmat, kynningarferð um skólann og fórum síðan í verkefnavinnu. Í verkefnavinnunni var útskýrt hvernig verkefnið væri og hvernig við ættum að vinna það. Við fengum blöð með skrefum og fyrsta skrefið var að finna út hvaða part af eyjunum við viljum vernda það komu tillögur eins og að vernda varpsvæði fugla, gönguleiðir og skóga. Skref 2 var að tala saman um hvað væri nú þegar verið að gera til að vernda náttúruna á eyjunum og skref 3 var að koma með 10 lausnir til að vernda náttúruna og sumir hópar voru með fleiri lausnir en það. Við komumst að því að eyjarnar eru frekar ólíkar t.d. er ekki hægt að vera með sólarpanela í Hrísey og ruslið er ekki flokkað á Vlieland. Um hádegisbil fór fjölmiðlafólk að mæta á svæðið og fyrir utan skólann söfnuðust íbúar og ferðamenn. Þegar konungshjónin mættu á svæðið fórum við út og mynduðum röð ásamt öllum nemendum De Jutter. Það var mikil upplifun að taka á móti þeim og sjá hversu miklu máli heimsóknin skipti heimamenn. Við fórum aftur upp að vinna og skömmu síðar litu konungshjónin við í tíma hjá okkur og spurðu okkur út í verkefnið – myndbrot frá spjallinu kom í hollensku fréttunum um kvöldið (byrjar á 9:40) og í story á instagram síðu konungshjónanna.

Við fengum síðan frítíma fram að kvöldmat, einhverjir fóru að versla, aðrir fóru í fótbolta, aðrir fóru í göngu. Hollendingarnir buðu okkur út að borða um kvöldið veitingastað á tjaldsvæðinu og fengu allir pizzu. Eftir matinn fengum við að fara í sund og síðan aftur í frjálsan tíma, sumir lásu, aðrir fóru út og sumir fóru aftur á veitingastaðinn að horfa á fótbolta og Eurovision.

Á miðvikudeginum fórum við í morgunmat í skólanum og síðan héldu hóparnir kynningar á sínum hugmyndum. Það gekk hratt og vel fyrir sig og við fengum auka frjálsan tíma og gengum síðan saman niður á strönd og fórum í ferð með trukk sem keyrði okkur eftir ströndinni og stoppaði við safn með rusli sem skolað hefur á land á eyjunni.

Eftir ferðina fengum við frjálsan tíma, það fóru margir að græja sig fyrir ball og einhverjir fóru að versla. Við fengum síðan kvöldmat í skólanum og mættum á glimmerballið sem þau höfðu undirbúið fyrir okkur. Við þurfum síðan að pakka og fara snemma að sofa. Á fimmtudeginum vöknuðum við klukkan fimm til að fara í ferjuna frá Vlieland. Eftir það var okkur keyrt á flugvöllinn í Amsterdam, flugum til Keflavíkur og þaðan með rútu til Reykjavíkur á KFC. Á leiðinni norður stoppuðum við á Blönduósi, borðuðum og náðum að fylgjast aðeins með undanúrslitum Eurovision. Síðan héldum við bara af stað og vorum komin á Árskógssand klukkan 23 og beint í ferju og þá var ferðinni lokið.

Það skemmtu sér allir mjög vel og eiga eftir að muna eftir þessari skemmtilegu ferð.