Fara í efni
Menning

„Hringrás lífsins í öllum sínum gerðum“

Skáldið Sigurður Ingólfsson sendi nýverið frá sér ljóðabókina Mold sem prýdd er teikningum Péturs Péturssonar, prófessors emerítus

Sigurður er doktor í frönskum bókmenntum og leggur stund á guðfræði. Hann er af þingeyskum og eyfirskum ættum, fæddur og uppalinn á Akureyri. Sigurður hefur skrifað í blöð og tímarit, verið fréttamaður, blaðamaður, pistlahöfundur í útvarpi og blöðum, unnið við fornleifar og fleira smálegt, eins og segir á bókarkápu. „Ein bók hefur komið út eftir hann í Frakklandi. Þetta er ellefta bók Sigurðar,“ segir þar.

Hugmynd í útför

„Hugmyndin varð til í útför og notar sem kaflaheiti textann sem farið er með við moldun. Þó aðeins á annan hátt, þemað er í raun hringrás lífsins í öllum sínum gerðum,“ segir Sigurður við Akureyri.net um tilurð bókarinnar. Pétur Pétursson, sem einnig er Akureyringur – sonur séra Péturs Sigurgeirssonar biskups og Sólveigar Ásgeirsdóttur – er prófessor emerítus og doktor í félagsfræði og guðfræði. Hann hefur fengist við gerð teikninga og vatnslitamynda samhliða störfum sínum og í bókinni birtast nokkrar teikningar með viðarkolum sem sækja innblástur í ljóð Sigurðar.

Sigurður Ingólfsson og Pétur Pétursson.

„Okkur Pétri hefur orðið vel til vina í guðfræðinni og eftir að hafa fylgst með teikningum hans og málverkum um hríð, spurði ég hann bara hvernig honum litist á að myndskreyta þessa bók en við erum á svipaðri hillu innan deildarinnar. Hann tók vel í það og þetta er afraksturinn.“

Þessi níunda ljóðabók Sigurðar skiptist í þrjá kafla. Séra Kristján Valur Ingólfsson skrifar formála að bókinni og segir meðal annars:

„Við fyrstu sýn gæti svo virst sem kaflaheitin vísuðu til útfararritúals kirkjunnar þar sem mold er sett á líkkistu við grafreit eða í kirkju með orðunum: Af jörðu ertu komin(n), að jörðu skaltu aftur verða, af jörðu skaltu aftur upp rísa. Í því orði er vísað beint í fyrstu Mósebók: Því að mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa. (1M 3.19b.)“

Kristján Valur heldur áfram: „En skáldið Sigurður fer allt aðra leið en ritúalið og breytir áhersluröðinni. Fyrsti hlutinn er samt: Af jörðu ertu kominn, en í öðrum hlutanum tekur hann fyrir orðin: Af jörðu skaltu upp rísa og í þeim þriðja yrkir hann út frá orðunum: Að jörðu skaltu aftur verða. Skáldið fjallar um tilurð manneskjunnar og fæðingu hennar af jörðu, um það þegar hún rís upp af jörðu og þess þegar hún hverfur aftur til jarðarinnar þegar lífsdagur er liðinn.“

Fyrsta ljóð fyrsta hluta bókarinnar, Af jörðu ertu kominn, er svohljóðandi:

Fyrir nokkrufór sáðmaðuryfir moldu.

Grjótið hafðiekki reynstgróðursælt.

Yfirvar anganmoldar.

Hún virtistbenda til

væntanlegsræktarlands,

nýrrarParadísar

Maðurinner gróðursettur.

Annað hvortí lundi eðaeyðimörk.

Vaxtarskilyrðineru þar ólík.

Enda iðulegauppskerubrestur.

Líf og trú og tilvist manns

Kristján Valur segir í formálanum: „Mold er orð í eintölu. Samt er mjög erfitt að hugsa sér mold sem eitthvað eitt. Þessi ljóðabók með því nafni staðfestir það. Hún heitir Mold og er um mold og þó er hún fyrst og fremst um líf og trú og tilvist manns í víðri merkingu alls þess.“

Kristján Valur segir um höfundinn: „Sigurður Ingólfsson, doktor í frönskum bókmenntum, ljóðskáld og guðfræðinemi, hefur verið mjög virkur á akri ljóðlistarinnar allt frá sínum menntaskólaárum eða frá því að fyrsta ljóðabók hans HÚM kom út árið 1986. Þá strax sló hann á strengi ljóðhörpu sinnar sem enn ómar.“

Hann segir einnig: „Myndir Péturs Péturssonar prófessors, djúpar og dularfullar, opna fallegar og lýsandi víddir. Þær minna á að hið ósegjanlega Orð verður aðeins tjáð í ljóðmáli, myndum og tónum.“

  • Vert er að geta þess að laugardaginn 17. febrúar verður Sigurður í Davíðshúsi, þar sem lesin verða valin ljóð úr Mold, einnig úr fyrri bókum og áður óbirt ljóð.