Fara í efni
Menning

Hreppstjórinn er sterkur, en líka mjúkur

Brynja Harðardóttir Tveiten listakona. Myndir með viðtali: Rakel Hinriksdóttir

Líf hreppstjórans geðþekka liggur fyrir augum gangandi vegfarenda Hafnarstrætis. Í tilefni af Mottumars og hvatningar Krabbameinsfélags Íslands um hreyfingu og heilbrigðan lífsstíl karlmanna, hafa Brynja H. Tveiten og systir hennar Áslaug Tveiten skapað gluggainnsetningu að Hafnarstræti 88, þar sem Brynja er með vinnustofu ásamt leirlistakonunni Hrönn Brynjarsdóttur. 

„Hugmyndin um að setja upp listasýningu í glugganum hérna, fæddist fyrir Akureyrarvöku á síðasta ári,“ segir Brynja. „Þá langaði okkur að gera eitthvað sniðugt með þennan glugga, sem er á góðum stað þar sem margir labba framhjá. Við tókum okkur til og settum upp hnallþóruboð í glugganum.“ Á veisluborðinu voru meðal annars Píkublómin sem Brynja hefur búið til í gegn um tíðina, en það eru listaverk sem eru sett saman úr handverki kvenna sem listakonan hefur fundið á nytjamörkuðum eða áskotnast með öðrum leiðum. 

Á dúkuðu borði hjá Hreppstjóranum eru Píkublómin framreidd fallega á diskum. Þau voru líka á borðum á fyrstu sýningu systranna í glugganum á Akureyrarvöku og eru listsköpun Brynju.

„Við systur höfum gríðarlegan áhuga á gömlu dóti sem hefur sögu, og búa til samhengi,“ segir Brynja, en systir hennar, Áslaug Hildur Harðardóttir Tveiten rekur markaðinn Frú Blómfríði á sumrin, sem er einskonar skrautmunasala með gömlu dóti. „Þarna vorum við í essinu okkar, að skapa einhvern lítinn heim úr alls konar hlutum.“ Eftir að sýningin á Akureyrarvöku vakti eftirtekt og góð viðbrögð, vatt gluggagallerí systranna enn frekar upp á sig. „Við settum upp sýningu í bleikum október og fyrir jólin. Svo fengum við styrk frá Menningarsjóði Akureyrarbæjar, sem hvatti okkur til dáða og nú erum við búnar að kynna hreppstjórann til leiks hér í glugganum,“ segir Brynja.    

 

Sýningin er innblásin af áherslum Krabbameinsfélagsins í Mottumars 2024, hreysti, hreyfingu og heilbrigðum lífsstíl karla.

Til þess að dýpka sýninguna enn frekar, er sýning hreppstjórans líka á Facebook. Þar koma annað slagið inn litlar sögur af Hreppstjóranum, en Brynja sér hann náttúrulega ljóslifandi fyrir sér. „Sko. Hreppstjórinn er dásamlegur,“ segir Brynja. „Hann er með mikið skegg sem hann hefur metnað í að halda fínu. Hann er líka mjög fróður og ákveðinn, kannski svona klassískur draumakarakter úr rauðu ástarsögunum. Bæði sterkur, en líka mjúkur.“ Brynja segir að hann eigi alveg til að missa sig svolítið í kvenfólkið en hann vilji í rauninni elska eins og við hin. 

Eitthvað er þó á seyði á milli hans og kórstjórans, sem kemur stundum í heimsókn

„Þegar á reynir, þá stendur hann sterkur,“ segir Brynja. „En inn við beinið er hann mikið náttúrubarn og vill hafa sína einveru. Hann er bóndi, á kindur, hesta og hænur. Auk þess er hann duglegur í garðyrkju og hefur matjurtargarð.“ Brynja segir að ástæða þess að Hreppstjórinn er einhleypur, sé að hann hafi lent í mikilli ástarsorg sem hann er enn að jafna sig á. Eitthvað er þó á seyði á milli hans og kórstjórans, sem kemur stundum í heimsókn til þess að æfa kórinn sem hann syngur í. „Hún er sköruleg kona og aðeins eldri en hann. Myndarleg og klár. Jafnoki. Hann vill ekki konu sem á að þjóna honum, hann bakar sjálfur og er mjög sjálfstæður.“ 

 

Tónlistin er stór partur af lífi hreppstjórans, og hver veit hvort að hann finni ástina kannski líka í tónlistinni?

„Ég var semsagt núna að búa hann til,“ segir Brynja hlæjandi, þegar blaðamaður spyr hvort að þær systur hafi sest niður fyrirfram og kortlagt líf og persónu Hreppstjórans. „Það er það sem er svo skemmtilegt við það að skoða svona gamalt dót, að hugmyndin um söguna á bak við hlutinn verður bara til á staðnum.“

Þegar kvöldkaffið er drukkið, er ætlunin að fara saman á dansleik, og það liggur mikil spenna í loftinu.

Frá götunni séð, er sýningin í raun lesin frá hægri til vinstri. „Hér er svolítið gras á gólfinu, þar sem hann kom inn úr fjárhúsunum og smeygði sér svo í inniskóna,“ segir Brynja. „Svo kemur hann inn í stofu, þar sem hann geymir bækurnar sínar og alls kyns áhugamál eins og munnhörpuna, kíkinn og spilin. Svo er nú baðherbergið næst, þar sem hann ætlar að snyrta sig einstaklega vel, vegna þess að nú stendur mikið til.“ Brynja og Áslaug hafa dekkað borð sem sést í inn um gluggann, vegna þess að þar hefur Hreppstjórinn undirbúið svolítið kvöldboð fyrir gesti sína. Þegar kvöldkaffið er drukkið, er ætlunin að fara saman á dansleik, og það liggur mikil spenna í loftinu.

Sýningin mun standa út mars, og tilvalið að rölta við og skoða líf Hreppstjórans við Hafnarstræti 88. 

 

Brynja segir að Áslaug systir hennar haldi mikið upp á þessa bók, en hún er handskrifuð með upplýsingum um flóru Íslands.