Fara í efni
Menning

Hrafninn „glysgjarnari en nokkur kvenmaður“

  • Hrafninn: þjóðin, sagan, þjóðtrúin er ein þeirra bóka sem Bókaútgáfan Hólar ehf. gefur út fyrir þessi jól. Hún er rúmlega 400 blaðsíður að stærð og ríkulega myndskreytt. Höfundur er Sigurður Ægisson. Hér er gripið niður í hana á nokkrum stöðum.

_ _ _

Saga hrafnsins með íslensku þjóðinni nær samkvæmt rituðum heimildum allt aftur til 9. aldar, þegar hann leiddi Flóka Vilgerðarson upp að Íslandsströndum. Vísindin segja þennan fugl með gáfuðustu dýrum jarðar. Því til sanningamerkis mætti nefna það sem Hallfríður Nanna Franklínsdóttir (1916–2022) sagði bókarhöfundi 16. febrúar árið 2010 og hvergi hefur birst á prenti áður. Þetta gerðist í Fljótum í Skagafirði. Georg Hermannsson (1925–2009), bóndi á Ysta-Mói, fékk úr Siglufirði eitthvert árið tunnu með þrárri saltsíld í, kom henni fyrir nokkurn spöl frá húsinu og ætlaði hestum að fá sér, ef þeir vildu. Hann sá fljótlega, að þeir höfði lítinn áhuga á þessu, en alltaf minnkaði þó í ílátinu. Hann fór því að vakta staðinn. Birtist þá ekki hrafn, krækir í síld og flýgur með hana á brott, samt ekki langt, því hann kemur henni fyrir í læk þar skammt frá, hverfur á braut en að ákveðnum tíma liðnum mætir hann á staðinn aftur og sækir hana, útvatnaða og fína, og étur.

Hrafninn þekkir og man andlit og kann að telja, alla vega upp að sjö.

Og hann á sér fleiri hliðar.

„Hrafninn er talinn hinn mesti rummungsþjófur. Hann stelur öllu steini léttara og er glysgjarnari en nokkur kvenmaður.“ Þessi orð gaf að líta í Morgunblaðinu árið 1961 og eflaust hafa margir lesendur tekið undir með greinarhöfundi, enda þessi ásælni krumma í bjarta og skínandi hluti þjóðinni vel kunn, sem og í margt annað. Að líkindum hefur fuglinn stundað þessa iðju hér allt frá landnámi, því í Biskupa sögum, þar sem verið er að fjalla um persónur og leikendur á 12. eða 13. öld, „í ágæts manns híbýlum, Kolbeins Tumasonar“ er ein saga um þetta.

Einnig er hann stríðinn með afbrigðum. Á Jökuldal greip taminn hrafn einhverju sinni á 20. öld reykjarpípu út úr ungum manni, flaug með hana yfir stöðuvatn þar nærri og lét hana gossa. Í Neskaupstað var annar, sem réðist á dreng, sem var að koma út úr bakaríinu með rjómaís í hönd, og stal af honum dýrindinu.

En það er ekki bara mannfólkið sem verður fyrir barðinu á krumma, því oftar en ekki hafa samskipti fuglsins við hunda verið dálítið róstusöm. Í Borgarfirði eystri var til dæmis stríðinn hrafn, taminn, sem átti það til að koma frá Hólalandi og út að Desjarmýri, kanna svæðið nákvæmlega, læðast svo gangandi aftan að hundunum, sem oft voru þá bara í afslöppun og áttu sér einskis ills von, bíta í rófuna á þeim og flögra svo glaðklakkalegur rétt utan seilingar þeirra. Og væri þvottur á snúrum, fjarlægði hann allar klemmurnar og raðaði þeim snyrtilega á botninn á olíutunnu sem var þar á hlaðinu. En tauið fór auðvitað í svaðið.

Fleiri dýrategundir eru innan radíuss hins blakka fugls, þegar að ertninni kemur. Nefna mætti haförninn og köttinn og svo er alla vega ein í viðbót. „Merkileg þykja þau fyrirbæri, þegar hrafnarnir taka upp á því að herma eftir hundum og gelta, svo að sauðkindin leggur á flótta,“ gefur nefnilega að lesa í Stóru fuglabók Fjölva.

Það er líka skap í krumma og þessi annálaði prakkari gat auðveldlega móðgast við fólk, sem annars gaf honum reglulega að borða. Sigurlína Halldóra Daðadóttir (1879–1971), saumakona, alin upp á Borg í Skötufirði, var til dæmis með ungan hrafn í fæði part úr ári. Eitt sinn ákvað hún að prófa að gabba hann með því að bjóða honum stein, sem leit út eins og mjólkurostur, en hann sá muninn undir eins. Öðru sinni var Sigurlína búin að hengja út þvott á snúrur. Hvítt rúmteppi fór mjög í taugarnar á kostgangaranum; hann stökk á það og reyndi að ná í kögrið. Húsmóðurinni var þá nóg boðið og fór út vopnuð strákústi. Fuglinn hvarf á braut og sagði með því upp vistinni.

Örnefni tengd hrafninum eru rúmlega 550 talsins á Íslandi, að því er lesa má á vefslóðinni Nafnið.is, sem er á vegum Árnastofnunar, og í nokkrum öðrum heimildum til viðbótar, og örnefni tengd orðinu krummi eru um 70 — það er að segja ef einungis er tekið mið af sjálfum orðmyndunum. Dreifingin er svo annað mál. Hrafnabjörg virðast algengust, koma fyrir á rúmlega 100 stöðum á Íslandi, og Hrafnaklettar eru þar fast á eftir og síðan Hrafnagil og Hrafnaklettur. Til samanburðar eru arnarörnefni (ásamt lobbu og loddu) um 350 talsins. Hrafninn er því í algjörum sérflokki hvað þetta varðar, eins og í svo mörgu öðru.