Fara í efni
Menning

Hrafnhildur – „Habbý Art“ – á Bláu könnunni

Hrafnhildur Kristinsdóttir – Habbý Art – opnar sölusýningu á málverkum á Bláu könnunni á fimmtudaginn, 4. maí.

„Aðallega verð ég með fugla landsins en einnig portrett inn á milli til að brjóta upp sýninguna. Í nokkur ár hef ég þróað tækni að byggja myndirnar út fyrir rammann og verða nokkrar myndir í þeim dúr á sýningunni – sjón er sögu ríkari,“ segir listakonan.

Hrafnhildur kveðst alla tíð hafa haft gaman af því að  fást við fjölbreytileika við sköpun og vilji ekki festast í sama forminu. Hún hefur alla tíð haft áhuga á myndlist en ekki eru nema fjögur ár síðan hún fór að vekja á sér athygli og láta vita af sér sem myndlistarkonu.

Í tilkynningu kemur fram að Hrafnhildur lærði málun, teikningu og model teikningu í Myndlistaskóla Kópavogs og einnig nam hún hjá myndlistakonunni Borghildi Önnu í fimm ár.