Fara í efni
Menning

Hönnuðu og smíðuðu módel af húsgögnum

Friðrik Steinn Friðriksson, vöru- og upplifunarhönnuður, leiðbeinir þátttakendum listvinnustofunnar. Mynd: Almar Alfreðsson - Akureyri.is.

Ungmennum á aldrinum 12 til 15 ára bauðst fyrir skemmstu að taka þátt í spennandi hönnunarvinnustöfu, listvinnustofu verkefnisins Allt til enda - Listvinnustofur barna í Listasafninu á Akureyri. 

Þátttakendur sköpuðu módel af húsgögnum sem bæði er lítil útgáfa af venjulegum hlutum og skref í átt að því að smíða þá í fullri stærð, að því er fram kemur á vef Listasafnsins. Umsjón með vinnustofunni hafði Friðrik Steinn Friðriksson, vöru- og upplifunarhönnuður. Ungmennin voru virkir þátttakendur í öllu ferlinu, allt frá því að leita sér innblásturs, skapa verkin í samstarfi við Friðrik Stein og sýna afraksturinn á sérstakri sýningu sem Hlynur Hallsson safnstjóri opnaði formlega í safnfræðslurými Listasafnsins. Sýningin stendur til 17. desember.

Verkefnið Allt til enda - Listvinnustofur barna hófst árið 2021 en þar fá börn á grunnskólaaldri tækifæri til að láta ljós sitt skína á sinni eigin sýningu sem þau undirbúa frá upphafi til enda. Hönnunarvinnustofan með Friðriki Steini er áttunda listvinnustofan í verkefninu. Verkefnið í ár er styrkt af Safnasjóði og Akureyrarbæ. Verkefnastjóri er Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, fræðslufulltrúi.


Frá opnun sýningar á afrakstri listvinnustofunnar í safnfræðslurými Listasafnsins. Mynd: Almar Alfreðsson - akureyri.is.

Þátttakendur listvinnustofunnar:

  • Elínborg Una Árnadóttir
  • Emil Halldórsson
  • Freyja Wyrwich
  • Fríða Harðardóttir
  • Magnús Emil Skúlason
  • Númi Kristínarson
  • Sigurður Hólmgrímsson
  • Stefanía Hólm Skjaldardóttir

Nánar er sagt frá verkefninu í máli og myndum á Akureyri.is - sjá hér.