Fara í efni
Menning

Hjartagalli, blóðtappi í heila og nú plata

Svavar Viðarsson, sem alinn er upp nálægt Akureyri og stundaði nám í VMA á sínum tíma, var að senda frá sér plötu. Það sem telja má merkilegt er að hann lét þann draum rætast þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum miklar hremmingar síðasta árið.

Svavar fékk blóðtappa í heila og greindist með hjartagalla fyrir um ári síðan og voru honum ekki gefnar miklar líkur á bata. Þannig fór hins vegar að Svavar náði fullum bata og eltir nú ástríðu sína í tónlist og útivist.

„Ég tók það ekki í mál að ég myndi ekki lifa veikindin af eða festast í þessu ástandi. Ég leyfði mér ekki að hugsa út í það neikvæða sem gæti gerst heldur einblíndi ég á það jákvæða í lífinu og hvað ég hlakkaði til að gera þegar ég væri búinn að ná mér, sem var að taka upp og gefa út plötuna mína, Enginn lengur veit,“ segir Svavar.

Sjö lög eru á plötunni, sem er Svavari afar þýðingarmikil enda kostaði hún blóð, svita og tár. Hægt er að fá diskinn sendann heim eða hlaða honum í tölvu eða síma.

Hér er hægt að kaupa plötuna.

Upptökur fóru fram hjá Nice Productions, Studio Pros og Studio Leyni. Hljómsveitin Nostal sá um hljóðfæraleik að mestu en hana skipa: Bjarni Ómar Haraldsson söngvari, Ragnar Z Guðjónsson trommari, Svavar sem leikur á bassa, rafgítarleikararnir Baldur Ketilsson og Þröstur Leósson, og Jón Karl Ólafsson, sem leikur á hljómborð.

Að auki komu að verkefninu söngkonan Rakel Pálsdóttir, Tómas Jónsson píanóleikari, Sigurður Bjarki Gunnarsson sellóleikari, Matthías Stefánsson sem lék á fiðlu og víólu, og Vignir S. Vigfússon, sem spilaði á kassagítar. Sá síðastnefndi sá auk þess um upptökustjórn og útsetningar.