Fara í efni
Menning

Helga, Jón, Pétur og Piazzolla á Spotify

Það er ekki á hverjum degi sem Íslendingar gefa út tónlist með harmonikku, píanói og kontrabassa, en það gerðist nú í vikunni. Á föstudag kom út á Spotify smáplata þar sem Helga Kvam, Jón Þorsteinn Reynisson og Pétur Ingólfsson leika fimm verk eftir argentínska tónskáldið Astor Piazzolla. Þessi þrenning hélt upp á 100 ára afmæli tónskáldsins með tónleikum í Laugaborg í Eyjafjarðarsveit í mars, það var eftirminnileg og magnþrungin stund.

Nú er sem sagt hægt að hlusta á þessa mögnuðu tónlist á Spotify. Útsetningarnar fyrir píanó, harmónikku og kontrabassa hafa listamennirnir sjálfir gert, en enda þótt Piazzolla sé einna kunnastur fyrir harmónikku- eða bandaneontónlist samdi hann tangóa fyrir mörg önnur hljóðfæri og mannsröddina. Útsetningarnar eru afar hófstilltar og argentínsku tangóstefin hljóma þýtt í harmonikkunni umvafin píanókransi og bassinn styður undir óminn. Í þessari útgáfu eru þrjár undurfagrar Milongur, ein Ave María og svo Oblivion, langþekktasta verk Piaazzolla, upphaflega samið fyrir hljómplötu árið 1982 en var stef í kvikmynd Marco Bellocios um Hinrik fjórða árið 1984.

Astor Piazzolla fæddist 11. mars 1921 í Mar de Plata í Argentínu. Foreldrar hans voru börn innflytjenda sem flust höfðu frá Ítalíu til Argentínu í lok 19. aldar. Þegar Astor var fjögurra ára fluttu foreldrar hans til New York og bjuggu þar um ellefu ára skeið uns þau fluttu til baka til Mar de Plata. Litli drengurinn ólst upp við misjafnar aðstæður, en tónlistaráhugi föðurins og hljómplötur hans með tangótónlist, klassík og djassi mótuðu drenginn og voru eflaust grundvöllur sköpunarverks hans, en Piazolla er gjarnan nefndur faðir nýja tangósins, nuevo tango, þar sem gætir verulegra áhrifa frá klassík og djassi. Á New York árunum keypti faðir Astors notað bandoneon hjá veðmangara og drengurinn fór fljótt að leika á þennan grip. Bandoneon er dragspil af svipaðri ætt og harmonikka, kennt við þýska hljóðfærasalann Heinrich Band, en mun hafa borist til Argentínu með þýskum innflytjendum og varð með tímanum einkennishljóðfæri tangósins, og margir telja það upprunnið í Argentínu sjálfri.

Að loknum New York árunum varði Astor unglingsárunum við tónlistarnám í Argentínu og þótti afar liðtækur við klassíska tónlist, stundaði meðal annars nám í píanóleik í Buenos Aires að ráði Arthus Rubinsteins, sem þar bjó þá, og túlkaði meðal annars Bach, Stravinski, Ravel og Bartók á eftirminnilegan hátt. Hann sökkti sér í klassíkina frá morgni fram á miðjan dag en kvöldunum varði hann á tangóbúllum. Hann lagði líka stund á útsetningar og tók að semja tónlist fyrir bæði einleikshljóðæri og hljómsveitir. Hann var einnig liðtækur í djassi, en tangóinn var fólginn í hjarta hans og tónsmíðar hans skipta hundruðum. Hann ferðaðist um víða veröld með stærri og smærri hljómsveitum og lék á tónleikum, samdi tónlist fyrir kvikmyndir og þannig mætti lengi telja, auk þess sem hann jók við menntun sína, meðal annars í París.

Og núna þegar hundrað ár eru frá fæðingu þessa snillings gefst okkur færi á að skjótast inn á Spotify og hlusta á Jón Þorstein spila á harmonikku, Helgu á píanó og Pétur á bassa og tangóinn fær hugann til að sveima.