Fara í efni
Menning

Haukur heiðraður á Degi íslenskrar tónlistar

Haukur Tryggvason þakkar fyrir sig í Iðnó í gær.

Tónleikastaðurinn Græni hatturinn á Akureyri hlaut verðlaunin Gluggann á Degi íslenskrar tónlistar í gær, á hátíðarsamkomu í Iðnó við Reykjavíkurtjörn. Glugginn er veittur þeim verkefnum sem þykja sýna íslenskri tónlist sérstakt atfylgi, eins og það var orðað; sérstakan stuðning.

Græni hatturinn hefur lengi verið einn vinsælasti tónleikastaður landsins. Haukur Tryggvason eigandi staðarins hefur staðið í brúnni síðan hann kom staðnum á koppinn árið 2003.

Eitt kvöldið kom enginn

Á 10 ára afmæli Græna hattsins, árið 2013, kom út bók sem bar nafn staðarins. Þar var saga starfseminnar rakin, aðallega í myndum, en  í kafla sem ofanritaður skrifaði segir meðal annars:

Fyrst í stað bauð Haukur upp á tónleika á fimmtudögum, síðan einnig á föstudags- og laugardagskvöldum. „Það tók tíma að venja fólk á að mæta klukkan átta eða níu og ég hélt reyndar framan af að það væri ekki hægt, en þegar Pétur Ben var hér fyrstur á laugardagskvöldi kom annað í ljós.“ Reksturinn gekk ágætlega um tíma en síðan fjaraði undan starfseminni og Haukur var kominn á fremsta hlunn með að taka niður hattinn; sá sæng sína uppreidda laugardagskvöld eitt í desember 2006 þegar ekki einn einasti maður mætti á tónleika. „Dyrnar voru ekki opnaðar allt kvöldið. Það kom enginn! En hljómsveitin má eiga það að hún lék allt sitt prógramm og var fín. Keyrði svo suður aftur um  nóttina.“

Hætti við að hætta

Ennfremur segir:

Stuttu seinna hringdi síminn og Grímur Atlason umboðsmaður tilkynnti Hauki að hin þekkta, sænska söngkona, Lisa Ekdahl, vildi koma. „Ég ætlaði að hætta um áramótin en ákvað að þrauka til 2. mars að beiðni Gríms. Lisa hafði áður komið til Íslands og vildi í þessari ferð fara út á land.“ Akureyringar geta því þakkað Lísu og Grími að menningarmusterið, sem stundum er kallað svo af góðu fólki, lagði ekki upp laupana. „Tónleikar Lisu voru rosalega vel lukkaðir. Þeir spurðust út og það seldist upp áður en farið var að auglýsa.“ Ekdahl var líklega ekki mjög þekkt meðal almennings hér á landi „en í bænum er margt fólk menntað í Svíþjóð og sá hópur fyllti staðinn!“ Þá var ekki aftur snúið. Haukur varð að hætta við að hætta.

Staðurinn hefur allar götur síðan notið mikilla vinsælda og margir geta vartímyndað sér bæjarlífið á Akureyri án Græna hattsins!

Smellið hér til að lesa nánar um verðlaunaafhendingu á Degi íslenskrar tónlistar.